Kynþáttafordómar, gyðingahatur og ótti við múslima

Í sögulegu samhengi eiga kynþáttafordómar og gyðingahatur sér djúpstæðar rætur í Evrópu. Til að koma auga á og skilja þessi fyrirbæri í nútímanum er nauðsynlegt að þekkja bæði til sögu þeirra og viðhorfanna sem liggja þeim að baki. Þetta á einnig við um aðrar gerðir andúðar á tilteknum hópum, t.d. ótta við múslima og ótta við samkynhneigð. Allar gerðir andúðar eiga sameiginleg viss virkniferli sem láta okkur í té sjálfsmynd, öryggiskennd og tilgang. Auk þess eiga öll þessi viðhorf sér sögulega þróun sem verður að taka alvarlega og við verðum að skilja til fulls ef ætlunin er að öðlast skilning á þessari hegðun. Veldu flipann „Fordómar, andúð og hatur“ til að finna kennsluefni sem tengist fordómum af ólíku tagi.

 • Kynþáttafordómar

  Flýtivalmynd

  Kynþáttafordómar og fjöldamorð

  Norðmenn munu aldrei gleyma morðinu á Benjamin Hermansen. Fyrir því eru margar ástæður, en ein sú augljósasta er að hann var eingöngu myrtur vegna húðlitar síns. Þeir sem myrtu hann voru yfirlýstir nýnasistar. Saga Benjamins er um saklausan dreng sem myrtur er á grimmdarlegan hátt, en hún kallar einnig fram tengsl við verstu fasistaríki, hryðjuverk og fjöldamorð síðari tíma. Þetta er saga sem í huga okkar tengist Þýskalandi nasismans, aðskilnaðarstefnunni og Ku Klux Klan.

  Morðið á Benjamin minnir okkur á skuggalegustu augnablikin í sögu kynþáttafordóma; sögu sem nánast allir Norðmenn fordæma.

  Morðið á Benjamin minnir okkur á skuggalegustu augnablikin í sögu kynþáttafordóma; sögu sem nánast allir Norðmenn fordæma. Tengingin við þessa sögu getur útskýrt þau átök sem nú standa yfir um hugtakið „kynþáttafordómar“. Þegar orðið „kynþáttafordómar“ er notað felur túlkunarramminn ekki bara í sér fræðilegan skilning á hugtakinu – orðið vísar einnig til kúgunar og fjöldamorða.

  Þess vegna sárnar mörgum kennurum þegar nemendur kalla þá rasista, sem sýnir vel að hugtakið felur í sér meiri þyngd og vægi en orð gera öllu jöfnu. Í sumum tilfellum er hægt að nota önnur orð: Mismunun, útlendingaótti, karlremba, útilokun. Ekkert þessara orða hefur þó sama vægi og orðið „rasisti“.

  Hvað eru kynþáttafordómar?

  Orðið „kynþáttafordómar“ (einnig kallað rasismi) vísar til orðsins „kynþáttur“ og það var fyrst notað á fjórða áratug 20. aldar til að andmæla kynþáttahyggju og gyðingahatri í heimssýn nasista. Þrengri skilgreiningar á orðinu tengja það við þá hugmynd eða kenningu að kynþáttur sé líffræðilegt fyrirbæri. Eina skilgreiningu er að finna í Encyclopaedia Britannica (britannica.com):

  „hvers kyns aðgerðir, hegðun eða trú sem felur í sér heimssýn kynþáttahyggju – hugmyndafræði sem gengur út á að hægt sé að skipta mannkyninu niður í aðskildar og einangraðar einingar, svokallaða „kynþætti“; að orsakatengsl sé að finna á milli líkamlegra erfðaþátta og persónueinkenna, gáfnafars, siðferðiskenndar og annarra menningar- og atferliseinkenna, og að sumir kynþættir séu æðri öðrum frá náttúrunnar hendi.

  Víðari skilgreiningar á kynþáttafordómum vísa til ójafnrar meðferðar af ýmsu tagi, ekki endilega vegna kynþáttar. Dæmi um þetta er alþjóðasamningur Sameinuðu þjóðanna um afnám alls kynþáttamisréttis frá árinu 1966, en þar er „kynþáttamisrétti“ skilgreint á eftirfarandi hátt:

  „ … hvers kyns aðgreining, útilokun, takmörkun eða forgangur sem byggður er á kynþætti, litarhætti, ætterni eða þjóðernis- eða þjóðlegum uppruna.“

  Í bók sinni „Hvað eru kynþáttafordómar?“ (Hva er rasisme?) frá árinu 2015 skilgreina Bangstad og Døving kynþáttafordóma með eftirfarandi hætti (1. kafli):

   1. Að skipa almennum borgurum í ólíka hópa þar sem sumum eru eignuð neikvæð og eðlislæg (óbreytanleg) einkenni.
   2. Að smætta sjálfsmynd einstaklings niður í neikvæð einkenni tiltekins hóps.
   3. Að nota þessi neikvæðu einkenni til að réttlæta undirskipun og mismunun einstaklinga.

  Út frá þessari lýsingu eru kynþáttafordómar annað og meira en annars vegar fordómar og hins vegar misrétti. Samkvæmt Bangstad og Døving fléttast fordómar og misrétti saman í hugtakinu „kynþáttafordómar“: Kynþáttafordómar eru þegar fordómar eru notaðir til að réttlæta misrétti.

  Kynþáttafordómar sem baráttuhugtak

  Í umræðunni er gjarnan deilt um það hvað kynþáttafordómar fela í sér. Kynþáttafordómar eru viðkvæmt viðfangsefni sem auðvelt er að nota í pólitískum tilgangi; viðfangsefni sem getur orðið að baráttuhugtaki, sem er skiljanlegt í samhengi við þrúgandi og blóðuga sögu kynþáttafordóma. Segja má að kynþáttafordómar dagsins í dag, sem byggja á líffræðilegum rökum, séu vestræn hugmynd. Þegar kynþáttafordómar eru skilgreindir með víðari hætti og litið á þá sem fordóma sem réttlæta misrétti er hægt að rekja tilvist kynþáttafordóma miklu lengra aftur til ótal ólíkra samfélaga og landsvæða.

  Hugtakið felur í sér hugmyndina um „okkur“ og „hina“ og í því felst að einstaklingar sem tilheyra „hinum“ geti aldrei orðið eins og „við“ eða tilheyrt „okkur“.

  Hugtakið felur í sér hugmyndina um „okkur“ og „hina“ og í því felst að einstaklingar sem tilheyra „hinum“ geti aldrei orðið eins og „við“ eða tilheyrt „okkur“. Á bakvið slík viðhorf lágu gjarnan trúarlegar útskýringar þar sem guðdómlegt yfirvald hafði fordæmt „hina“. Í rökræðum um þetta málefni er gjarnan einblínt á muninn á kynþáttafordómum sem byggja á líffræðilegum grunni og víðari skilgreiningum á kynþáttafordómum, sem getur að einhverju leyti skýrt hvers vegna svo mikil ósátt ríkir um merkingu hugtaksins. Þegar hugtakið er notað verður hins vegar ekki komist hjá tengingu þess við þrælahald og fjöldamorð. Þetta getur skýrt hvers vegna hugtakið „kynþáttafordómar“ er umdeilt og tilfinningum hlaðið. Á sama tíma eru það einmitt sögulegar skírskotanir hugtaksins sem gera það svona veigamikið. Orðfæri á borð við „hversdagslegir kynþáttafordómar“ getur því virst mótsagnakennt vegna þess að það er ekkert hversdagslegt við ofsóknir, þrælahald og fjöldamorð. Önnur hugtök láta líka á sér kræla, t.d. „útlendingahatur“, „fordómar“, „útlendingaótti“, „misrétti“, „kerfisbundið misrétti“ og „forréttindi meirihlutans“. Það hvaða hugtak er notað til að lýsa tilteknum aðstæðum verður að skoða út frá orðfæri viðkomandi einstaklings, hvernig hann eða hún túlkar aðstæðurnar og hverju viðkomandi vill ná fram með orðavali sínu.

  Megineinkenni á kynþáttafordómum dagsins í dag er hvort viðhorfið gagnvart tilteknum hópi er fastmótað og hvort hópnum eru eignaðir eiginleikar sem meðlimir hans komast ekki undan.

  Megineinkenni á kynþáttafordómum dagsins í dag er hvort viðhorfið gagnvart tilteknum hópi er fastmótað og hvort hópnum eru eignaðir eiginleikar sem meðlimir hans komast ekki undan.

  Kerfisbundnir kynþáttafordómar og hversdagslegir fordómar

  Mikill munur er á því þegar rasísk viðhorf leggja grunn að samfélagsgerðinni, t.d. þegar aðskilnaðarstefnan réð ríkjum í Suður-Afríku til ársins 1994, eða þegar kynþáttafordómar brjótast út í hegðun eða gjörðum einstaklings. Michel Wieviorka hefur varpað ljósi á fjögur stig kynþáttafordóma innan ólíkra samfélaga (The Arena of Racism 1995, 5. kafli):

  1. Undirliggjandi kynþáttahyggja, sem einkennist af ólíkum birtingarmyndum útlendingaótta, leggur grunninn að kynþáttafordómum.
  2. Kynþáttafordómar koma skýrt en dreift fram í samfélaginu – þar á meðal í viðhorfskönnunum.
  3. Kynþáttafordómar koma fram á stjórnmálasviðinu, þ.e.a.s. með stofnun rasískra (stjórnmála)hreyfinga.
  4. Kynþáttafordómar eru allsráðandi grundvallarþáttur í samfélaginu sem byrja að leiða til útilokunar og ofsókna.

  Á fyrsta stiginu í kenningum Wieviorka er hugtakið „hversdagslegir kynþáttafordómar“ oft notað um kynþáttafordóma. Hversdagslegir kynþáttafordómar felast í því þegar „hinir“ mæta viðhorfum eða lenda í atvikum sem ekki stafa af ásettu ráði. Það gæti t.d. verið þegar hörundsdökkt fólk er litið hornauga í strætó eða þegar íbúi er andsnúinn því að sómölsk fjölskylda flytji í næstu íbúð.

  Saga kynþáttafordóma

  Hugtakið „kynþáttafordómar“ kom fyrst fram á sjónarsviðið í belgískri fræðigrein árið 1922 sem gagnrýndi hugmyndir um að hinn germanski kynstofn væri æðri öðrum. Hugtakið náði frekari útbreiðslu í bók sem þýski gyðingurinn Magnus Hirschfeld skrifaði árið 1938, en hann var kynfræðingur og læknir og bókin kom út í Bandaríkjunum að honum látnum. Hirschfeld er einnig talinn upphafsmaður að réttindabaráttuhreyfingum samkynhneigðra eins og við þekkjum þær í dag. Þar sem Hirschfeld var kynfræðingur, baráttumaður gegn kynþáttafordómum, baráttumaður gegn nasismanum, gyðingur og yfirlýstur stuðningsmaður samkynhneigðra passaði hann vel inn í heimsendaspár nasista, en þeir héldu því fram að markmið gyðinga og samverkamanna þeirra væri að sundra þýsku þjóðinni og veikja hana með því að grafa undan félagslegum hefðum, hvetja til blöndunar á milli kynþátta og hrifsa að endingu til sín öll völd.

  Hugtakið „kynþáttur“ kom fyrst fram á sjónarsviðið á 16. öld, fyrst og fremst í samhengi við ættartengsl. Líffræðilegir kynþáttafordómar, sem gjarnan tengjast nýlendustefnu, þrælahaldi og aðskilnaðarstefnu, eiga rætur sínar að rekja til Upplýsingarinnar, nútímavæðingar og vísindaþróunar frá og með 18. öldinni. Því er hægt að segja að líffræðilegir kynþáttafordómar séu nútíma kynþáttafordómar. Vísindamenn sem rannsökuðu kynþætti út frá líffræðilegum forsendum lögðu til að fólk yrði flokkað eftir sýnilegum, líkamlegum einkennum og þetta fóru rasistar að nota til að réttlæta stigveldi innan samfélaga út frá umræddum flokkum. Nútímaleg „kynþáttavísindi“ sköpuðu þannig orðræðu þar sem fyrst og fremst var litið á hóp fólks sem líffræðilegt og mannfræðilegt samfélag, frekar en til að mynda sem trúarlegt samfélag. Hér er vert að bæta því við að innan vísinda og mannfræðinnar fengu hugmyndir nasista um æðri kynþátt lítinn stuðning. Nasisminn byggði á goðsögnum sem áttu sér enga stoð í kynþáttavísindum og líffræðilegri mannfræði.

  Aðskilnaður kynþátta út frá líffræði og menningu

  [Image: rasekart]

  Heimild: Deutsches Konversationslexikon, 1890.

  Þetta kort er að finna í þýskri alfræðiorðabók frá árinu 1890. Þar er mannkyninu skipt niður í þrjá helstu kynþætti: Kákasusmenn, negra og mongóla. Á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar var það útbreidd skoðun í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum að mannkyninu mætti skipta niður í aðskilda kynþætti út frá líffræðilegum einkennum – og að evrópsk menning væri sú háþróaðasta. Sú hugmynd að þróun samfélagsmenningar héldist í hendur við líffræðilega getu hópsins var útbreidd í vestrænum þankagangi.

  Hugmyndin um að önnur menningarsamfélög væru óæðri og vanþróuð varð þannig fyrirrennari líffræðilegra kynþáttafordóma.

  Hugmyndin um að önnur menningarsamfélög væru óæðri og vanþróuð varð þannig fyrirrennari líffræðilegra kynþáttafordóma. Hvítir Evrópubúar trúðu því að önnur menningarsamfélög, sem þeir litu á sem óæðri, væru það vegna lakara gáfnafars. Í dag virðist gjarnan litið svo á að líffræðilegir kynþáttafordómar hafi aðeins snúist um líffræðilega eiginleika í sögulegu samhengi. Í þessu felst misskilningur. Tengslin á milli menningar og erfðaþátta voru ávallt talin vera sterk.

  Víðtæk vitneskja um kúgun þeldökkra Afríkubúa á nýlendutímanum, t.d. í Suðurríkjum Bandaríkjanna og Suður-Afríku, hefur ýtt undir þann misskilning að aðeins þeldökkir einstaklingar verði fyrir kynþáttafordómum.

  Margt bendir til þess að best þekkta dæmið um kynþáttafordóma sé lögleg kúgun þeldökkra Afríkubúa í evrópskum nýlendum, Suðurríkjum Bandaríkjanna og Suður-Afríku, bæði fyrir og eftir aldamótin 1900. Þetta hefur ýtt undir þann misskilning að aðeins þeldökkir einstaklingar verði fyrir kynþáttafordómum. Samkvæmt heimsmynd sem byggir á kynþáttahyggju voru t.d. Rússar, Samar og Inúítar af mongólskum uppruna og þar með óæðri. Hinum mongólska kynþætti var gjarnan lýst þannig að „stutt hauskúpa“ einkenndi hann, en þó væri hann jafnljós á hörund og kynþættir með „langa hauskúpu“. Ekki er hægt að skilja til fulls vissa sögulega viðburði án þess að þekkja einnig til sögu kynþáttalíffræði og kynþáttafordóma, t.d. þær aðlögunarreglur sem norska ríkið skikkaði Sama til að fara eftir og fjöldamorð nasistaríkisins á Pólverjum og Rússum. Sem dæmi má nefna að í lok 19. aldar voru Samar hafðir til sýnis í dýragörðum. Kynþáttahyggjan sem var bæði útbreidd fyrir síðari heimsstyrjöldina og á meðan henni stóð – og sem nasisminn byggði á – átti sér fleiri og lúmskari birtingarmyndir en kortið frá 1890, en allar grunnhugmyndirnar voru þær sömu.

  Kynþáttalausir kynþáttafordómar

  Nýlegar erfðafræðirannsóknir hafa að miklu leyti hrakið þá hugmynd að mannkynið samanstandi af ólíkum kynþáttum. Ekki er að finna nein tengsl á milli ytri og sýnilegra eiginleika, sem rannsóknir á kynþáttum hafa lagt mikla áherslu á í sögulegu samhengi, og innri eiginleika sem aðeins er hægt að rannsaka með hátæknibúnaði á rannsóknarstofum. Með öðrum orðum er ekki hægt að spá fyrir um blóðflokk einstaklings út frá húðlit hans eða hennar. Samt trúa því sumir að þekking á erfðafræðilegum mun á milli ólíkra hópa hafi gildi í læknisfræðilegum skilningi.

  Nú þegar erfðafræðin hefur að miklu leyti hrakið hugmyndina um kynþáttavísindi er þess í stað gjarnan talað um „kynþáttalausa kynþáttafordóma“.

  Nú þegar erfðafræðin hefur að miklu leyti hrakið hugmyndina um kynþáttavísindi er þess í stað gjarnan talað um „kynþáttalausa kynþáttafordóma“. Með því er átt við að þótt í dag séu aðrar breytur notaðar til að flokka hópa (t.d. menning, trúarbrögð eða þjóðarbrot) séu viðhorfin, fordómarnir og kúgandi aðferðirnir hinar sömu og þeir sem aðhylltust líffræðilega kynþáttahyggju notuðu. Slíkar röksemdafærslur leggja grunn að víðtækri skilgreiningu á kynþáttafordómum sem einhverju stærra og meira en mismunun á grundvelli kynþáttar.

  Að fást við kynþáttafordóma í skólastofunni

  Kynþáttafordómar verða áfram tengdir við hryllilega glæpi í fyrirsjáanlegri framtíð. Í augum margra barna og ungmenna eru kynþáttafordómar hins vegar almennt og hversdagslegt fyrirbæri, þ.e.a.s. eitthvað sem allir geta stundað og orðið fyrir, og minni líkur eru á því að þau hugi að hinu sögulega samhengi. Hins vegar er líklegt að viðhorf kennara til kynþáttafordóma litist í meira mæli af sögunni. Ef kennarinn er ekki meðvitaður um ólíka notkun og túlkun hugtaksins „kynþáttafordómar“ er hætt við því að nemendur og kennarar tali einfaldlega ekki sama tungumálið.

  Það er mikilvægt að þekkja til kynþáttafordóma í sögulegu samhengi vegna þess að þannig getum við komið auga á dæmigerðar hugmyndir sem byggja á kynþáttafordómum.

  Í kennslu um kynþáttafordóma er áríðandi að horfa ávallt á fortíðina og nútímann í samhengi. Það er mikilvægt að þekkja til kynþáttafordóma í sögulegu samhengi vegna þess að þannig skiljum við betur þá hættu sem stafar af kynþáttafordómum og getum betur komið auga á dæmigerðar hugmyndir sem byggja á þeim. Skoðum dæmi: Nemandi spyr kennara hvort henni finnist bananar góðir. Nokkrir nemendur flissa. Einn þeldökkur nemandi flissar ekki. Til að geta lagt mat á stöðuna og séð hvernig hægt er að bregðast við á ólíkan hátt þarf kennarinn að þekkja til gömlu klisjunnar um að þeldökkir Afríkubúar séu skyldari öpum en manneskjum. Vísindamenn á Vesturlöndum freistuðu þess að sanna þessa ályktun á 19. öld og þessi viðleitni þeirra var nýtt til að lögleiða kúgunina. Þótt þessi klisja hafi verið verið vísindalega hrakin með óyggjandi hætti hefur reynst erfitt að kveða hana niður. Segja má að með þessu sögulega samhengi sé spurningin mun alvarlegri en án þess. Kennarinn getur áfram valið að bregðast við spurningunni með ýmsum hætti, en með því að þekkja sögulegu vísanirnar á bakvið orðið „banani“ er hann mun betur í stakk búinn til að takast á við þessar aðstæður.

  Tökum annað dæmi: Nemandi kallar annan nemanda „kartöflu“. Þessi orðanotkun kemur frá Hedmark-svæðinu í Noregi þar sem orðið var notað til að gera lítið úr kartöflubændum. Í dag er það notað sem slanguryrði hjá ungmennum yfir einstaklinga með ljósan húðlit. Í þessari orðanotkun er einnig að finna sögulegt samhengi. Munurinn á þessu og fyrra dæminu er að hér er sögulegi bakgrunnurinn ekki eins alvarlegur. Það þýðir ekki að svona aðstæður beri að leiða alfarið hjá sér, en vitneskja um sögulegan uppruna þessa slanguryrðis auðveldar kennaranum að leggja mat á aðstæðurnar.

  Þegar kynþáttafordómar eru teknir til umfjöllunar í skólastofunni gæti kennarinn byrjað á að spyrja nemendur hvort þeir hafi sjálfir upplifað kynþáttafordóma. Ef svo er getur kennarinn spurt spurninga á borð við „í hverju lentirðu?“ og „hvers vegna fannst þér þetta vera kynþáttafordómar?“. Kennarinn getur líka rætt um það við nemendur hvað kynþáttafordómar fela í sér: „Hvað finnst ykkur vera kynþáttafordómar?“ „Á hverja hafa kynþáttafordómar áhrif?“ „Geta allir orðið fyrir kynþáttafordómum?“ Kennarinn getur einnig fjallað um kynþáttafordóma í sögulegu samhengi, t.d. með því að skoða „kynþáttavísindi“ með öllum sínum mælingum og kortlagningu kynþátta, auk þess að skoða sögulegar aðstæður á borð við aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku, þrælahald í Bandaríkjunum, meðferð Norðmanna á Sömum og Töturum eða þrælasölu Evrópubúa og Araba á vissum landsvæðum í Afríku.

  Í kennslu um kynþáttafordóma getur verið gagnlegt að tengja sögulegar staðreyndir við stöðuna í dag.

  Í kennslu um kynþáttafordóma getur verið gagnlegt að tengja sögulegar staðreyndir við stöðuna í dag: „Hvernig takast Bandaríkjamenn á við eigin sögu um þrælahald?“ „Hvaða bætur og leiðréttingar hafa norsk stjórnvöld veitt Sömum í Noregi?“ Í samantekt getur kennarinn tekið aftur upp fyrri umræðuefni og rætt ólíkar túlkanir nemenda á kynþáttafordómum og þeim sögulegu atburðum sem fjallað var um. Þetta er viðfangsefni þar sem ólíkar skoðanir ríkja og því ættu umræðurnar að verða líflegar.

  Höfundur: Harald Syse

   

 • Gyðingahatur

  Flýtivalmynd

  Hvað er gyðingahatur?

  Sögu gyðingahaturs er gjarnan skipt í tvö stig, þar sem fyrra stigið á sér rætur í trúarbrögðum (kristni) og nær frá því snemma á miðöldum til loka 19. aldar og síðara stigið er litað af þjóðernishyggju og kynþáttalíffræði og nær hámarki í nasismanum. Eitt megineinkenni gyðingahaturs er hversu auðveldlega það aðlagast orðræðu og vandamálum hvers tíma fyrir sig, sem gerir það síbreytilegt. Eftir síðari heimsstyrjöldina er einna helst vísað til helfararinnar og átakanna á milli Ísrael og Palestínu þegar rætt er um þessi viðhorf. Sumir rannsakendur líta á þessa þróun sem þriðja stigið í sögu gyðingahaturs, en enn er deilt um hvort líta megi á hana sem ný-gyðingahatur (sjá t.d. Bachner 2004; Wieviorka 2005). Segja má að einmitt þessi blanda af gömlum og nýjum þáttum sé skilgreinandi hluti af gyðingahatri, bæði í sögulegu samhengi og í dag. Það var Þjóðverjinn Wilhelm Marr sem bjó til hugtakið „gyðingahatur“ á áttunda áratug 19. aldar. Á þeim tíma var orðið notað til að lýsa pólitískri hugmyndafræði hreyfingar sem vann gegn því sem litið var á sem neikvæða samfélagsþróun í átt til „yfirráða gyðinga“. Hreyfingin var stofnuð eftir að gyðingum voru veitt borgaraleg réttindi (frelsun gyðinganna) og félagsleg staða þeirra styrktist (sjá t.d. Jacob Katz 1980). Hugtakið tengdist í fyrstu andúð á gyðingum á grundvelli kynþáttahyggju þess tíma, en í dag er það oftast notað í víðara samhengi og nær einnig yfir gyðingahatur fyrri tíma sem byggðist á trúarlegum forsendum og síðari tíma viðhorf sem einkennast af gyðingahatri.

  Gyðingahatur má skilgreina sem neikvæð viðhorf og aðgerðir sem beinast gegn gyðingum og því sem telst vera „gyðinglegt“, byggt á fastmótuðum hugmyndum um gyðinga.

  Út frá þessum víðtæka skilningi má skilgreina gyðingahatur sem neikvæð viðhorf og aðgerðir sem beinast gegn gyðingum og því sem telst vera „gyðinglegt“, byggt á fastmótuðum hugmyndum um gyðinga. Hins vegar er gjarnan deilt um hugtakið gyðingahatur. Fyrir því eru margar ástæður og sumar þeirra eiga sér sögulegan bakgrunn. Eftir síðari heimsstyrjöld þóttu yfirlýst og neikvæð viðhorf til gyðinga ekki vera við hæfi í Evrópu. Á millistríðsárunum lýstu margir sjálfum sér sem „gyðingahöturum“ en slíkar yfirlýsingar væru því sem næst óhugsandi í dag. Þetta hefur valdið því að að rökræður um gyðingahatur fela oft í sér umræðu um það hvernig beri að skilgreina hugtakið. Gyðingahatur er líka dæmigert venslafyrirbæri eins og það birtist í mismunandi aðstæðum, hvort sem það er í skólanum eða utan hans. Það þýðir að aðstæður hverju sinni og samskipti og tengsl hlutaðeigandi einstaklinga móta birtingarmynd gyðingahatursins og hvernig það er túlkað.

  Hið sögulega vægi: viðhorfin liggja djúpt

  Andúð á gyðingum byggist á ákveðnum hugmyndum um gyðinga og að þeir búi yfir tilteknum neikvæðum eiginleikum og skapgerðareinkennum. Þetta eru hugmyndir sem kynslóðir erfa í gegnum menninguna og lagast að ólíkum sögulegum og félagslegum aðstæðum. Rannsóknir á hugmyndunum á bakvið gyðingahatur hafa hins vegar varpað ljósi á nokkrar grunnhugmyndir sem endurtaka sig. Dæmi um slík minni er að gyðingar séu sviksamt, valdamikið og framandi aðkomufólk.

  Á bakvið gyðingahatur liggja nokkrar grunnhugmyndir, t.d. að gyðingar séu sviksamir, valdamiklir og framandi aðkomumenn.

  Í hvers kyns hópamyndun eru dregnar ýmiss konar línur á milli „okkar“ og „hinna“. Þegar við gerum okkur hugmyndir um „hina“ mótum við líka mynd af „okkur“ sem lýsir því hvaða gildi og málefni við höfum í hávegum. Því má líta á gyðingahatrið sem eins konar andstöðu við „okkur“ sem hóp og samfélag. Þeir sértæku þættir sem liggja að baki staðalímyndinni í gyðingahatrinu spretta úr tilteknum þörfum eða vandamálum eða hugmyndafræðilegum straumum á hverjum tíma. Við þurfum að skilja hvaða hlutverki þessi mynd af „gyðingnum“ hefur gegnt til að geta skilið sögu gyðingahaturs. Þegar saga gyðingahaturs er skoðuð er áberandi hvernig miðaldahugmyndir um „gyðinginn“ einkenndust af átökum kristni og gyðingdóms. Trúin á skynsemishugsunina var mikilvæg á upplýsingaöldinni; þá var hægt að setja gyðingdóm á sama bás og önnur trúarbrögð og segja hann andstæðan skynsemi og ekki í takt við tíðarandann. Eftir rússnesku byltinguna bættist við hugmyndin um gyðinga sem mögulega byltingarmenn og alvarlega ógn; um samsæri gyðinga og kommúnista í því sem kallað var „gyðinglegur bolsévismi“. Þannig hafa hugmyndir fólks um gyðinga breyst með tímanum í takt við samfélagslegar breytingar.

  Í sögulegu samhengi má halda því fram að í trúarlegum átökum gyðingdóms og kristni sé að finna helstu menningarlegu ástæðurnar fyrir gyðingahatri í Evrópu.

  Í sögulegu samhengi má halda því fram að í trúarlegum átökum gyðingdóms og kristni – þar sem helst var tekist á um það hvort Jesús var Messías eða ekki – sé að finna helstu menningarlegu ástæðurnar fyrir gyðingahatri í Evrópu. Fræðimenn deila um það hvort gyðingar hafi þegar í fornöld verið ofsóttir vegna andúðar á þeim. Afgerandi mynd af bæði gyðingum og múslimum sem óvinum var þegar farin að mótast á tímum krossferðanna, en fyrsta krossferðin var farin í upphafi 12. aldar. Því má segja að gyðingahatur eigi sér um þúsund ára sögu í Evrópu. Eitt af því sem einkennir fordóma gagnvart hópum, s.s. kynþáttafordóma og gyðingahatur, er vægi hins sögulega samhengis, en þar hefur forsagan bæði áhrif á það hvernig fordómarnir eru upplifaðir og túlkaðir í samtímanum. Á sama tíma getur verið mikill munur á upplifun brotaþola og aðstandenda hans af tilteknu gyðingahatri og raunverulegum ásetningi gerandans.

  Þegar bregðast á við gyðingahatri getur verið mikilvægt að þekkja til sögulegs samhengis.

  Í viðtalsrannsókn á vegum HL-miðstöðvarinnar í Noregi (Senter for studier av Holocaust og livssynsminoriteter) var skrásett reynsla norskra gyðinga af gyðingahatri (Døving og Moe 2014). Í rannsókninni kemur fram að hin langa forsaga þessara viðhorfa hefur áhrif á það hvernig svarendur túlka eigin neikvæðu reynslu. Svarendur lýstu meðal annars atvikum sem fólu í sér hugmyndir um „fégráðuga gyðinginn“ en þær byggjast á hefðbundnum staðalímyndum um gyðinga. Ein frásögnin kom frá 14 ára dreng frá Ósló. Hann hafði oft lent í því í skólanum að nemendur áreittu hann út frá þessari hugmynd. Áreitnin fór þannig fram að nemendur köstuðu að honum smápeningum og spurðu síðan hvers vegna tíndi þá ekki upp, fyrst hann væri gyðingur. Að sögn drengsins voru þarna að verki „vinsælu“ nemendurnir og að hans mati þótti þeir enn meira „kúl“ eftir atvik af þessu tagi. Oft var áhorfendahópurinn stór („hundrað“) en oftast fimm til tíu nemendur. Hann sagði að gerendurnir hefðu alltaf verið strákar en að „stelpurnar hefðu hlegið“. Drengnum þótti þetta mjög niðurlægjandi. Til að skilja áhrifin sem brotaþoli verður fyrir í slíkum atvikum sem byggja á hópafordómum getur verið nauðsynlegt að varpa ljósi á hvernig atvikin eiga sér gjarnan víðara samhengi en atvikið sjálft gefur í fljótu bragði til kynna. Þegar bregðast á við gyðingahatri getur verið mikilvægt að þekkja til sögulegs samhengis.

  Nokkrar algengustu og lífseigustu klisjurnar um gyðinga eiga rætur í sögunni um Júdas. Svik hans við Jesú er leiðarstef í hugmyndum um sviksemi gyðinga, um gyðinginn sem andkrist sem ber ábyrgð á dauða Krists. Sú staðreynd að Júdas þáði greiðslu fyrir svikin ýtir einnig undir þá hugmynd að gyðingar séu sérstaklega fégráðugir. Hugmyndin um fégræðgi gyðinga er framlenging á hinni kristnu hugmynd um Júdas sem lét múta sér.

  Svik Júdasar gagnvart Kristi er grunnstefið í hugmyndinni um svikula gyðinginn og almenna fégræðgi gyðinga.

  Þessi hugmynd festi svo rætur í kjölfar átaka á milli kirkjuvalds og konungsvalds í Evrópu. Snemma á miðöldum störfuðu gyðingar í öllum atvinnugreinum en voru þó mest áberandi í verslun og viðskiptum. Víða var gyðingum bannað að eiga land og viðskiptin urðu þeim því tækifæri til að afla sér lífsviðurværis. Á þessu urðu breytingar á 11. öld og gyðingar fengu samkeppni frá öðrum hópum sem ætluðu sér einnig að lifa af verslun og viðskiptum. Mikil eftirspurn var eftir lánum og gyðingar féllu ekki undir ákvæði kirkjunnar sem meinuðu kristnum mönnum að lána fé gegn vöxtum. Gyðingar voru raunar aldrei einir um að stunda lánastarfsemi í Evrópu (að undanteknu Englandi á hluta 12. aldar) og aðeins fáir úr hópi gyðinga stunduðu viðskipti af þessu tagi. Gyðingar í Austur-Evrópu voru að jafnaði fátækt fólk. Samt varð myndin af gyðingnum sem lánabraskara þó fastur hluti af evrópskum hugmyndaheimi. Sælokk, gamli gyðingurinn sem lánaði fé í leikriti Shakespeares um „Kaupmanninn í Feneyjum“ er gott dæmi um það hve langlíf þessi hugmynd er í evrópskri menningu. Þegar Shakespeare samdi leikritið voru rúm 300 ár síðan gyðingum hafði verið vísað frá Englandi (það gerðist árið 1290 en leikritið var samið á árunum 1596/7). Eftir því sem England þróaðist í átt til nútímans fóru staðalímyndir gyðingahatursins því að taka breytingum. Hugmyndin um „fégráðuga gyðinginn“ fer með tímanum einnig að ná til alþjóðlegs fjármálavalds, kapítalista og kauphallarbraskara.

  Þegar neikvæðir eiginleikar eru tengdir hugmyndum um kynþátt og líffræðilega eiginleika eru þeir einnig heimfærðir upp á einstaklingana, burtséð frá hegðun þeirra.

  Eitt helsta einkenni „nútíma“ gyðingahaturs var sú staðreynd að þessi viðhorf voru heimfærð á kynþáttalíffræði og hugmyndir innan hennar. Þótt lengi hefði verið litið svo á að Gyðingar sem hópur hefðu ákveðin sameiginleg einkenni – þar sem hugmyndin var sú að „hið gyðinglega“ fæli í sér vissa eðlislæga þætti – fór þetta viðhorf að fá sífellt meira og alvarlegra vægi. Þegar neikvæðir eiginleikar eru tengdir hugmyndum um kynþátt og líffræðilega eiginleika eru þeir einnig heimfærðir upp á einstaklingana, burtséð frá hegðun þeirra. Hugmyndin um „hið gyðinglega“ í nútíma gyðingahatri leiddi einnig til þess að ekki var lengur nóg að skipta um trú til að losna undan andgyðinglegum árásum. Í hugmyndum nasismans og nútíma gyðingahaturs verður hugmyndin um „hið gyðinglega“ einnig að óræðri stærð sem felur í sér allt það sem nasisminn barðist gegn, hvort sem það voru pólitískir andstæðingar, tilteknir þættir í þróun samfélagsins eða nútímaleg viðhorf yfirhöfuð.

  Hugmyndin um hóp staðfestir sjálfa sig

  Í skólastofunni geta myndast umræður um það hvort þessi viðhorfi eigi sér rót í raunveruleikanum. Yfirleitt er hægt að finna raunveruleg dæmi sem „styðja“ við þessar hugmyndir. Ranghugmyndin (hugmyndin um hópinn sem eina heild) felst í því að alhæfa um alla gyðinga í ljósi einstakra dæma. Viðhorf sem byggja á staðalímyndum hafa einnig tilhneigingu til að staðfesta sjálf sig – einmitt vegna þess að þær fela í sér tiltekinn skilning á veruleikanum og vegna þess að tilvik sem stríða gegn staðalímyndunum fá litla athygli og vægi (sjá t.d. Robert S. Wistrich 1999).

  Með staðalímyndum setjum við upp „gleraugu“ og sjáum aðeins það sem við viljum sjá.

  Með staðalímyndum má segja að við setjum upp „gleraugu“ og sjáum aðeins það sem við viljum sjá. Fjandsamleg viðhorf gagnvart tilteknum hópum hafa í sögulegu samhengi einnig haft áhrif á samfélagslega stöðu, þar sem frelsi minnihlutahópa hefur verið takmarkað vegna viðhorfa meirihlutans. Hér má nefna það dæmi úr sögu gyðingahaturs að lengi var gyðingum bannað að eiga land. Þetta leiddi til þess að á tímabili lögðu gyðingar áherslu á verslun sér til viðurværis. Þannig var stoðum rennt undir hugmyndina um gyðinginn sem hugsar bara um peninga. Hugmyndin um „fégráðuga gyðinginn“ er oft „útskýrð“ með vísan til þekktra auðmanna. Staðalímyndir leiða þannig til þess að ákveðnir þættir veruleikans fá mikið vægi en þáttum sem ganga gegn þeim er ýtt til hliðar, t.d. þeirri staðreynd að milljónir gyðinga hafa búið við fátækt í austurhluta Evrópu. Önnur afleiðing af staðalímyndinni er sú að fórnarlambið er gert ábyrgt fyrir neikvæðu viðhorfunum. Skoðanakönnun HL-miðstöðvarinnar í Noregi sýndi að 12% Norðmanna álíta að „gyðingar beri sjálfir að miklu leyti ábyrgð á því að hafa verið ofsóttir“ (HL-miðstöðin 2012).

  Gyðingahatur og átök á milli Ísrael og Palestínu

  Margir þátttakendur í rannsókn HL-miðstöðvarinnar sögðu að neikvæð upplifun þeirra ætti í mörgum tilfellum rót að rekja til átaka Ísraelsmanna og Palestínumanna. Næstum allir þátttakendur sögðu að deilur vegna átakanna gætu verið stundum verið íþyngjandi.

  Rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl milli átaka Ísraelsmanna og Palestínumanna og hegðunar sem einkennist af gyðingahatri.

  Evrópskar rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl milli átaka Ísraelsmanna og Palestínumanna og aðgerða sem einkennast af gyðingahatri; þegar aukin harka færist í átökin fjölgar árásum á gyðinga og stofnanir þeirra (t.d. EUMC 2004 og FRA 2009). Átökin bæta nýju innihaldi í myndina af „gyðingum“ en þau hafa líka áhrif á þau grundvallarminni sem notast er við í gyðingahatri, t.d. hugmyndir um yfirráð og samsæri gyðinga, með því að tengja þau við Ísraelsríki og ísrealsk stjórnmál. Tákn úr nasisma eru gjarnan sýnileg samhliða orðræðu gyðingahaturs.

  Í viðtalsrannsókn á meðal norska gyðinga komu fram frásagnir af kennurum sem höfðu mætt andmælum þegar þeir fjölluðu um helförina, kennurum sem höfðu orðið vitni að nasistakveðjum í skólastofunni og kennurum sem höfðu heyrt athugasemdir á borð við: „Hitler hefði átt að leggja sig betur fram.“ Tjáningu á gyðingahatri fylgir í auknum mæli öfugsnúin táknanotkun þar sem hugmyndum um gerendur og þolendur er snúið á haus. Þar er gyðingum (þ.e.a.s. Ísraelsmönnum) lýst sem „nasistum“ og Palestínumönnum lýst sem fórnarlömbum nasista, á sama hátt og gyðingar voru það í sögulegu samhengi.

  Átökin eru notuð til að ráðast á gyðinga, þótt efnislega sé ekki hægt að skilgreina gagnrýnina sem gyðingahatur.

  Rannsókn HL-miðstöðvarinnar sýndi skýr en þó megindlega séð lítil tengsl á milli gyðingahaturs og mjög harðrar afstöðu gegn Ísrael hjá norskum almenningi (HL-miðstöðin 2012). Hins vegar var ekki hægt að greina þessa fylgni hjá flestum svarendum sem gagnrýnir voru á Ísrael. Í opinberri umræðu er endurtekið fjallað um tengslin á milli gagnrýni á Ísrael og gyðingahaturs. Oft snýst deilan um það hversu rétt sú mynd sé sem fjölmiðlar draga upp af átökum Ísraelsmanna og Palestínumanna. Fyrir kennara er líklega mikilvægast að hafa í huga að hvort sem birtingarmynd fjölmiðla er skökk eða ekki getur hún haft íþyngjandi áhrif og leitt til áreitni sem byggir á því hvernig Ísrael er lýst. Þannig geta einstaklingar notað átökin til árása á gyðinga, þótt efnislega sé ekki hægt að skilgreina gagnrýnina sem gyðingahatur.

  Margir svarendur í megindlegu viðtalsrannsókninni minntust á ólíkar gerðir alhæfinga, s.s. „Ísraelsmaður“ og „gyðingur“ (Døving og Moe 2014). Frásagnir svarenda snerust bæði um tilvik þar sem hugtökum var blandað saman og aðstæður þar sem upplifun þeirra var sú þeir þyrftu að svara fyrir gjörðir Ísraelsmanna með einum eða öðrum hætti. Oft var birtingarmyndin lúmsk, t.d. þegar svarendur upplifðu að fólk gerði ríkari kröfu til þeirra en annarra að mótmæla atburðum í Ísrael eða kröfðu þá um meiri þekkingu á deilumálum þar en aðrir voru krafðir um. Í rannsókninni voru atvik af þessu tagi oft ekki flokkuð sem gyðingahatur, jafnvel þótt þó væru afar óþægileg.

  Alhæfingar um „Ísraelsmenn“ og „gyðinga“ eru afar einkennandi.

  Ein frásögnin snerist um reynslu svaranda þegar hún var í öðrum bekk í skóla í Ósló. Fyrsta skóladaginn að loknu sumarfríi áttu allir nemendur að teikna stað sem þeir höfðu heimsótt um sumarið og hún teiknaði mynd af Ísrael, en þangað hafði fjölskyldan farið í frí. Þegar röðin var komin að henni og hún ætlaði að sýna bekknum teikninguna stöðvaði kennarinn hana og spurði hvað hún hefði teiknað. „Þetta er Ísrael,“ svaraði stúlkan. „Ég held þú ættir ekki að sýna myndina, þú gætir sært aðra í bekknum,“ svaraði kennarinn. Síðan var stúlkan beðin um að fá sér sæti. Þetta atvik lýsir ekki endilega neikvæðri afstöðu til gyðinga og aðrar ástæður geta hafa legið á bakvið viðbrögð kennarans. Það breytir því ekki að stúlkan upplifði þessar aðstæður sem afar útilokandi.

  Áhrifin af átökum Ísraels og Palestínu koma ekki síst fram í tengslum við nemendur frá Austurlöndum nær. Sumir svarendur höfðu orðið fyrir mjög alvarlegum og jafnvel ofbeldisfullum árásum á grundvelli gyðingahaturs þar sem upphafið mátti rekja til átakanna á milli Ísraels og Palestínu og gerendurnir voru tengdir Austurlöndum nær. Almennt höfðu svarendur mestar áhyggjur af gyðingahatri á meðal múslima. Margir þeirra lögðu þó áherslu á að gera greinarmun þegar rætt var um „múslima“ og nefndu að gyðingar og múslimar deili að mörgu leyti sameiginlegri reynslu af því að tilheyra minnihlutahópi í Noregi. Margir áttu líka vini úr hópi múslima.

  Gagnrýni á Ísrael er hægt að skilgreina sem gyðingahatur þegar neikvæðar aðgerðir af hálfu Ísraelsmanna eru sagðar stafa af eðlislægum og neikvæðum persónueinkennum gyðinga eða þegar hefðbundnar klisjur um gyðinga úr orðræðu gyðingahaturs eru notaðar til að lýsa gjörðum Ísraelsríkis.

  Gagnrýni á Ísrael er hægt að skilgreina sem gyðingahatur þegar neikvæðar aðgerðir af hálfu Ísraelsmanna eru sagðar stafa af eðlislægum og neikvæðum persónueinkennum gyðinga eða þegar hefðbundnar klisjur um gyðinga úr orðræðu gyðingahaturs eru notaðar til að lýsa gjörðum Ísraelsríkis. Í skólastofunni hafa stífar skilgreiningar hins vegar minna vægi. Oftar en ekki felst helsta áskorunin í því að fást við málefnið frá báðum hliðum og þróa aðferðir til að stýra umræðum í skólastofunni þannig að nemendum finnist þeir ekki flokkaðir í bása út frá því eigin sjálfsmynd og lífsskoðunum. Þannig geta allir nemendur tekið þátt í kennslunni á eigin forsendum. Kennaranum er ráðlagt að undirstrika að gyðingar séu ekki það sama og Ísraelsmenn og að Ísraelsmenn séu ekki það sama og ríkisstjórn Ísraels. Mikilvægt er að leggja áherslu á ólíkar hliðar málsins þegar fjallað er um átökin á milli Ísraels og Palestínu og það gæti reynst gagnlegt að fjalla nánar um sögu þessa heimshluta og forsendurnar á bakvið stofnun Ísraelsríkis.

  Helförinni afneitað

  Þótt helförin sé líklega það þjóðarmorð sögunnar sem hefur mest verið skrásett eru til einstaklingar sem hafna því að hún hafi átt sér stað eða segja lýsingar af henni mjög ýktar. Fyrir þessu eru færð ólík rök, en röksemdafærslan snýst oft um það hvort gasklefar hafi verið til. Þeir sem eru á þessu máli hafna því að gasklefar hafi verið til eða halda því fram að þeir hafi verið notaðir til annars en að myrða fólk, til dæmis til að aflúsa fólk. Þegar helförinni er afneitað eru hugmyndafræðilegar forsendur þjóðarmorðsins oft dregnar í efa – og þar með ásetningurinn á bakvið það. Því er haldið fram að meðvituð útrýmingarstefna hafi aldrei legið fyrir, einungis stefna um fólksflutninga austur á bóginn, og að þessar nær sex milljónir gyðinga hafi látist af öðrum ástæðum, einkum af völdum sjúkdóma. Einnig helst afneitun á helförinni gjarnan í hendur við þá hugmynd að þjóðarmorðið sé tilbúningur af hálfu gyðinga og að tilgangur þeirra sé sá sölsa undir sig völd eða fé. Í stuttu máli felst afneitun á helförinni í ýmsum samsæriskenningum og hún byggir á gyðingahatri.

  Afneitun á helförinni helst oft í hendur við þá hugmynd að þjóðarmorðið sé tilbúningur af hálfu gyðinga og að tilgangur þeirra sé sá sölsa undir sig völd eða fé.

  Það kemur jafnvel fyrir að helförinni sé afneitað í norskum skólastofum. Erfitt getur reynst að fást við slíkar fullyrðingar því þær geta haft yfirbragð gervivísinda (pseudoscience) sem gerir kennaranum erfitt fyrir að andmæla þeim með beinum hætti. Afneitun Helfararinnar á þetta sameiginlegt með (öðrum) samsæriskenningum. Til að efla varnir nemenda gagnvart slíkum hugmyndum er því mikilvægt að þróa góða aðferð við heimildarýni, auk þess að auka þekkingu á sögulegum atburðum sem tengjast helförinni.

  Höfundur: Vibeke Moe

 • Múslimahatur

  Flýtivalmynd

  Hvað er múslimahatur?

  Útbreiðsla neikvæðra viðhorfa gagnvart múslimum hefur verið vel skrásett í mörgum rannsóknum víða í Vestur-Evrópu, þar á meðal í Noregi (t.d. Pew 2008, Field 2007, Strabac og Listhaug 2007, Bleich 2009 og HL-miðstöðin 2012) en lítið er vitað útbreiðslu múslimahaturs hjá norskum almenningi.

  Múslimahatur og fordómar gegn múslimum eru ekki einn og sami hluturinn.

  Að sjálfsögðu tengjast neikvæð viðhorf og fordómar bæði þróun og forsendum múslimahaturs, en það er afgerandi munur á milli fordóma gegn múslimum og þeim víðtæku, hugmyndafræðilegu alhæfingum sem einkenna múslimahatur framar öðru. Í múslimahatri er að finna alhæfingar um múslima út frá eðlishyggju á háu stigi, sem er ekki endilega raunin í öllum neikvæðum viðhorfum gagnvart múslimum. Eðlishyggja felst í því að eigna einstaklingum sem tilheyra vissum hópi tiltekin náttúruleg, varanleg og eðlislæg persónueinkenni.

  Hægt er að skilgreina múslimahatur sem:

  kerfisbundna og hugmyndafræðilega aðferð við myndun fordóma og atferli sem ýtir undir ótta við múslima, hatur og mismunun gagnvart þeim.[1]

  Megineinkenni múslimahaturs

  Orðræða sem byggir á múslimahatri birtist í:

  • fullyrðingum sem byggja á eðlishyggjuhugmyndum um hvað íslam „er“ og að múslimar „hugsi og hegði sér“ í samræmi við þessar hugmyndir um hvað íslam „er“,
  • röngum eða mjög ýktum og hatursfullum fullyrðingum sem settar eru fram í niðrandi tilgangi
  • fullyrðingum sem byggja á því viðhorfi að vegna trúar sinnar séu múslimar minna virði en aðrir og/eða að þeir eigi ekki rétt á sömu borgaralegu réttindum og aðrir í evrópsku samfélagi.

   

  Rétt eins og gyðingahatur beinist ekki eingöngu gegn gyðingdómi, heldur gegn gyðingum og hugmyndum fólks um hvað í því felst að vera gyðingur, beinist múslimahatur ekki aðeins að múhameðstrú heldur er það samansafn hugmynda um menningu, þjóðerni og hugarfar þjóða. Í þessu samansafni eru trúarbrögð þó gjarnan mjög áberandi þáttur. Í múslimahatri er að sama skapi fjallað á ákveðinn hátt um múhameðstrú og þar er hún álitin vera:

  • ósveigjanleg og stíf
  • í grundvallaratriðum ólík öllum öðrum trúarbrögðum og menningu
  • óæðri vestrænni menningu, villimannleg, órökrétt, frumstæð og full af kynjamismunun
  • pólitísk trúarbrögð sem stafar af ofbeldisógn
  • það sama og íslamismi
  • hugmyndafræði ráðríkis og stjórnsemi sem einstaklingar nota til að ráðskast með aðra og ná völdum
  • fyrirbæri sem hefur sjálfstæðan vilja (íslam er með óhreint mjöl í pokahorninu, íslam vill leggja undir sig lönd o.s.frv.)

  Samsærishugsunarháttur

  Algengar hugmyndir á bakvið múslimahatur einkennast gjarnan af samsæriskenningum. Sem dæmi má nefna hugmyndina um að múslimar vinni með leynd að því að yfirtaka Evrópu, svokallaða Evrabíu-kenningu. Samkvæmt þeirri kenningu „þykjast þeir deila sömu gildum og við“ en eru í raun að blekkja okkur. Eitt helsta einkenni múslimahaturs eru sú hugmynd að múslimar séu í sjálfu sér neikvætt fyrirbrigði, alveg sama hvað þeir gera. Þannig eru þeir dæmdir fyrirfram í krafti hugmynda um erfðaþætti sem eiga rót sína í því að þeir hafa verið flokkaðir í tiltekinn hóp eða flokk: Þeir eru ofstækisfullir, þeim er illa við frelsi einstaklingsins, þeir kúga konur, þeir vilja ekki aðlagast samfélaginu og þeir eru ofbeldisfullir.

  Staðalímyndin um hryðjuverkamanninn er einnig stór þáttur í slíkum hugmyndum um „múslimann“: Hann vill leggja allt „sem er okkar“ undir íslam og hikar ekki við að nota hryðjuverk eða ógnandi athæfi. Þegar slík eðlishyggjuviðhorf fléttast við hugmyndakerfi sem heldur því fram að múslimar séu hættulegir og að þá eigi að útiloka er útkoman múslimahatur.

  Múslimahatur og kynþáttafordómar

  Þegar við lítum á það sem kynþáttafordóma að eigna fólki eðlislæg persónueinkenni vegna hópsins sem það tilheyrir og að telja þessi einkenni nægilega neikvæð til að halda meðlimum hópsins í fjarlægð frá okkur – þá má hiklaust nota hugtakið „múslimahatur“ þegar þessar aðferðir eru notaðar gagnvart múslimum sem hópi.

  Þegar því er andmælt að múslimahatur feli í sér kynþáttafordóma er gjarnan vísað til hugmyndarinnar um frelsi einstaklingsins. Múslimi getur valið að vera ekki múslimi en hann getur t.d. ekki valið sig frá meðfæddum húðlit sínum. Frá vissu sjónarhorni er hægt að líta á múslimska sjálfsmynd og samsömun sem persónulegt val – að minnsta kosti hvað varðar fullorðna einstaklinga í vestrænu, frjálslyndu og veraldlegu samhengi – og flestir þeirra sem gætu talist haldnir múslimahatri myndu samþykkja að umræddur einstaklingur gæti komist hjá því að flokkast múslimi með því að skipta um trú eða kasta trú sinni.

  Mikill meirihluti þeirra sem haldnir eru múslimahatri trúir því ekki að múslimsk sjálfsmynd ákvarðist af líffræðilegum þáttum. Röksemd þeirra er sú að ólíkt líffræðilegum „kynþáttum“ geti hver og einn „valið sig frá“ því að iðka múhameðstrú og því sé ekki rétt að flokka múslimahatur sem kynþáttafordóma. Gallinn við þessi rök er að einstaklingurinn velur ekki að fæðast inn í múslimska fjölskyldu, ekki frekar en kristinn maður eða gyðingur velur að fæðast inn í sína fjölskyldu og trúarbrögð hennar. Einstaklingurinn velur heldur ekki – hvort sem hann eða hún er trúuð eða ekki – að láta koma fram við sig og dæma sig sem múslima vegna útlits síns, húðlitar eða vegna þess að hann ber nafn sem hljómar múslimskt (Meer og Modood 2009: 345, og Meer 2012).

  Múslimar geta með öðrum orðum orðið fyrir kynþáttaflokkun og kynþáttafordómum vegna trúarbragða sinna – hvort sem þeir tilheyra trúarbrögðunum eða einfaldlega vegna þess að aðrir draga þá ályktun. Inntak og tilgangur múslimahaturs er að eigna múslimum eiginleika sem eru óbreytanlegir og ógnandi.

  [1] Skilgreiningin og textinn sjálfur byggir á bókinni „Hvað eru kynþáttafordómar?“ (Hva er rasisme?) eftir Bangstad og Døving (2015), Universitetsforlaget.

  Höfundur: Cora Alexa Døving

 • Bókmenntir

  Rasismi

  Bangstad, Sindre/ Døving, Cora Alexa (2015). Hva er rasisme?. Oslo: Univerisitetsforlaget.

  Goldberg, D. T. (2015). Are we postracial yet?. UK and Cambridge: Polity Press.

  Kyllingstad, Jon R. (2004). Kortskaller og langskaller: Fysisk antropologi i Norge og striden om det nordiske herremennesket. Oslo: Scandinavian Academic Press.

  Murji, K. and Solomos, J. (eds) (2015). Theories of Race and Ethnicity. Contemporary debates and perspectives, Cambridge: University Press.

  Rattansi, Ali (2007). Racism: A Very Short Introduction. Oxford og New York: Oxford University Press.

  Skorgen, Torgeir (2002). Rasenes oppfinnelse: Rasetenkningens historie. Oslo: Spartacus

  Wieviorka, Michel (1995). The Arena of Racism. London og New York: Sage.

  Gyðingahatur

  Bachner, Henrik (2004). Återkomsten – Antisemitism i Sverige efter 1945, Stockholm , Natur och Kultur.

  Døving, Cora Alexa og Vibeke Moe (2014). Det som er jødisk. Identiteter, historiebevissthet og erfaringer med antisemittisme, rapport fra HL-senteret.

  Eriksen, Trond Berg/ Harket, Håkon/ Lorenz, Einhart (2009). Jødehat – Antisemittismens historie fra antikken til i dag. Oslo: Cappelen Damm.

  European Monitoring Centre on Racism and Xenophobia (EUMC) (2004). Manifestations of antisemitism in the EU 2002 – 2003, Wien.

  Fundamental Rights Agency (FRA) (2009). Anti-Semitism: Summary overview of the situation in the European Union 2001 – 2008, Wien.

  HL-senteret (2012). Antisemittisme I Norge? Den norske befolkningens holdninger til jøder og andre minoriteter, rapport fra HL-senteret.

  Katz, Jacob (1980). From Prejudice to Destruction. Antisemitism, 1700-1933, Harvard University Press.

  Wieviorka, Michel et al. (2005). La tentation antisémite: Haine des Juifs dans la France d’aujourd’hui, Paris: Robert Laffont.

  Wistrich, Robert (1999). Demonizing the Other. Antisemitism, Racism and Xenophobia, Routledge.

  Íslamsfælni

  Meer, Nasar (red.) (2014). Racialization and Religion. Race, Culture and Difference in the Study of Antisemitism and Islamophobia, London: Routledge.

  Hópfjandskapar

  Zick, Andreas/ Küpper, Beate/ Hövermann, Andreas. (2011). Intolerance, Prejudice and Discrimination. A European Report. Berlin: Friedrich-Ebert-Stiftung.

Undervisningsopplegg