Framkvæmd

Hér á síðunni er að finna upplýsingar um hvernig unnið er með Dembra. Gátlistinn hér að neðan leiðir skólann gegnum fimm þrep í þróunarstarfinu:upphaf, kortlagningu, val á aðgerðum, framkvæmd og mat. Í gátlistanum er að finna nánari lýsingar á hverju þrepi fyrir sig, upplýsingar fyrir Dembra-hóp skólans og upplýsingar um starfsmannafundi.

Þú verður að vera skráð(ur) inn til að nota gátlistann.

 • 1 Upphaf

  Skólinn hefur tekið ákvörðun um að taka þátt í Dembra. Hvað tekur við?

  Skólinn þarf að:

  1. Staðfesta átaksverkefnið með upplýsingum og samtölum við kennara og annað starfsfólk, nemendur, foreldra og aðra viðkomandi
  2. Koma á fót Dembra-hópi með kennurum og stjórnendum sem skipuleggja starfsemina
  3. Útbúa dagatal fyrir verkefni sem varða kortlagningu, skólafundi og annað
  4. Móta áætlun um fundi með Dembra-leiðbeinanda

   

  1. Þátttaka skólans í Dembra staðfest

  Eigi skólinn að hafa eitthvert gagn af Dembra-starfinu þarf að vekja áhuga sem flestra á verkefninu. Staðfesting snýst um að markmið og meginreglur Dembra séu teknar til umræðu með hinum ýmsu hópum innan skólans. Mesta áherslu skal þó leggja á gott samtal við kennara og annað starfsfólk. Það er einnig lykilatriði að staðfesta verkefnið gagnvart nemendum og foreldrum.

  Þessir hópar þurfa staðfestingu:

  • Starfsfólkið (kennarar og aðrir)
  • Nemendur
  • Foreldrar/ félög þeirra
  • Eigendur skólans
  • Aðrir aðilar: nánasta umhverfi, samstarfsskólar, aðrir

   

  Skólastjórnin tekur endanlega ákvörðun um þátttöku í Dembra en tryggja þarf staðfestinguna með því að fá fólk með í ákvarðanatökuna, miðla upplýsingum og gefa færi á því að hafa áhrif eftir að ákvörðun hefur verið tekin.

  Dembra veitir skólanum sjálfum tækifæri til að skilgreina verkefni um útilokun og hópfjandskap. Þess vegna er mikilvægt að gefa hinum ýmsu hópum færi á að leggja fram óskir sínar og tillögur. Það er fyrir öllu að gefa fólki færi á að hafa áhrif á innihald Dembra-verkefnisins til að tryggja hvatningu og áhuga.

   

  2. Að koma á fót Dembra-hópi skólans

  Skólinn kemur á fót Dembra-hópi sem tekur að sér að skipuleggja forvarnarstarfið. Hópurinn ber ábyrgð á samhæfingu, uppfærslum og þátttöku starfsliðsins á öllum þrepum framkvæmdarinnar.

  Í Dembra-hópnum skulu vera fulltrúar bæði stjórnenda og kennara skólans. Við mælum með því að í hópnum sitji kennarar hinna ýmsu aldurshópa og að komið sé upp öruggum og góðum tengslum við alla árganga og faghópa skólans. Einnig kemur til mála að hafa nemendur í hópnum.

  Hópurinn velur sér tengilið sem ber ábyrgð á samskiptum við Dembra-leiðbeinanda skólans. Tengiliðurinn getur líka verið hópstjóri en skólinn getur einnig kosið að skipuleggja hópinn á annan hátt.

  Dembra-leiðbeinandinn fær í hendur nafn, stöðu, netfang og símanúmer allra hópfélaga.

  Dembra-hópurinn þarf að hittast reglulega til að rökræða og skipuleggja skólaverkefnið. Auðveldara gæti reynst að skipuleggja marga stutta fundi en langar setur í daglegu amstri innan skólans. Það er engu að síður mikilvægt að skólastjórnin gefi Dembra-hópnum færi á að verja þeim tíma sem þarf til starfsins.

  Dembra-hópurinn ber einnig ábyrgð á því að fræða starfslið skólans jafnóðum um framgang verkefnisins. Hópurinn þarf að gæta þess að miðla upplýsingum um Dembra reglubundið á sameiginlegum tíma kennaranna, t.d. með því að segja frá þróun mála í fáum orðum.

  Gátlistarnir á þessum síðum eru verkfæri Dembra-hópsins við að fylgja Dembra eftir. Hópurinn ber því aðalábyrgð á því að atriðin á listanum séu framkvæmd og hakað við þau eftir því sem verkinu miðar.

   

  3. Dagatal yfir framkvæmd

  Að stofnun Dembra-hóps skólans lokinni er hafist handa um að tímasetja verkefnin á gátlistanum og merkja dagsetningar inn á dagatalið í dálkinn Dembra-árið okkar.

  Eftirfarandi verkefni eru tímasett strax:

  • Námskeið er haldið með starfsliði skólans um verkefni og úrræði (skólafundur1)
  • Farið er yfir spurningalistann og aðra kortlagningu fyrir verkefnið.
  • Fundur með fulltrúum nemenda

  Best er að hópurinn ákveði sem flestar dagsetningar sem fyrst. Skólinn getur til dæmis ákveðið dagsetningar allra starfsmannafunda og annarrar starfsemi í tengslum við forvarnarstarfið.

  Dembra snýst um að skólinn komi á fót forvarnaraðgerðum að eigin vali. Þar getur bæði verið um að ræða áframhaldandi þróun átaksverkefna sem þegar eru fyrir hendi eða ný verkefni. Verkefnin eru öll skráð inn á Dembra-dagatalið en þau kalla líka á sérstakar áætlanir um framþróun, tímasetningu á frestum og þvíumlíkt. Nánari upplýsingar er að finna í kaflanum um Dembra-áætlunina.

   

  4. Áætlun um fundi með Dembra-leiðbeinanda

  Utanaðkomandi Dembra-leiðbeinandi aðstoðar Dembra-hópinn við framkvæmdina. Tengiliður Dembra-hópsins ber aðalábyrgð á samskiptum við leiðbeinandann.Samskiptin byggjast einkum á tölvuskeytum og símtölum. Hópurinn í heild sinni fær eftir þörfum leiðbeiningar á fundum eða síma- eða netfundum, þó að lágmarki í tengslum við eftirfarandi starfsemi:

  • Þegar hafist er handa með Dembra í skólanum.
  • Þegar allri kortlagningu er lokið. Þegar staðan í skólanum og fengnar tillögur eru rökræddar og greindar. Í fyrstu umferð um möguleg verkefnasvið.
  • Þegar verkefnasviðin hafa verið ákveðin (eða tillögur gerðar um þau). Þegar verið er að fínstilla og endurskoða verkefnasvið og umræða hefst um möguleg verkefni.
  • Þegar fyrstu tillögur að Dembra-áætlun liggja fyrir. Til að fínstilla og endurskoða áætlunina.
  • Þegar fyrstu verkefnin hafa verið unnin í skólanum. Við mat og fínstillingu á frekari framkvæmd.

   

  Dembra-hópurinn ákveður tímasetningar funda með leiðbeinanda í samstarfi við viðkomandi þegar á upphafsstigi. Fundirnir eru færðir inn í Dembra-dagatalið.

   

 • 2 Að leggja spurningalistann fyrir og önnur verkefni með kortlagningu

  Kortlagningarstigið í Dembra snýst um þrenns konar aðgerðir: Spurningalistann eða önnur nemendatengd verkefni með kortlagningu, námskeið fyrir kennara og fund með fulltrúum nemenda.

  Það tekur um 15 mínútur að svara spurningalistanum og það gera jafnt nemendur, kennarar og stjórnendur Könnunin er nafnlaus og farið er með niðurstöður úr hverjum skóla sem trúnaðarmál.

  Könnunin snýst um að kortleggja hvernig svarendur skynja þátttöku nemenda í ákvörðunum skólans og hvernig brugðist er við mismunandi skoðunum, auk þess hve algengir fordómar eru í skólanum. Svörin eru nýtt til að kortleggja hvaða átaksverkefni skólinn velur í Dembra-starfi sínu.

  Kennarar og nemendur fá í stórum dráttum sömu spurningarnar, auk þess sem kennarar fá nokkrar spurningar um persónulegar forsendur sínar.

  Kennarar á öllum stigum heildstæðra grunnskóla svara spurningalistanum en það gera ekki nemendur á barnaskólastiginu. Við mælum þess í stað með að kennarar ræði við nemendur sína um vellíðan, jaðarsetningu og það að skera sig úr.

  Spurningalisti nemenda

  Nemendum er tryggð algjör nafnleynd og þess vegna þarf að ekki að afla leyfis foreldra/forráðamanna. Við mælum engu að síður með því að foreldrar fái bæði almennar upplýsingar um Dembra og upplýsingar um spurningalistann. Óski foreldrar eftir því að börn þeirra taki ekki þátt í könnuninni er sjálfsagt að fara að þeirri beiðni. Foreldrarnir geta líka fengið að kynna sér spurningalistann, óski þeir þess.

  Spurningalistar kennara og stjórnenda

  Kennarar og stjórnendur ráða því sjálfir hvort þeir taka þátt í könnuninni.Við vonum þó að starfsfólkið geri það svo könnunin geti orðið góð forsenda fyrir starfi skólans. Tölvuunnin gögn eru varin með nafnleynd að könnun lokinni.

 • 3 Námskeið með starfsfólki

  Námskeiðið með starfsliðinu er hluti kortlagningar af þörfum skólans og viðmið um hvaða verkefnasvið skólinn velur sér. Ætlast er til þess að á námskeiðinu nái kennarar og annað starfsfólk að fjalla ýtarlega og opinskátt um það sem talið er vera helstu verkefni skólans hvað varðar viðfangsefni Dembra. Með námskeiðinu gefst líka tækifæri til að kynna Dembra-hópinn fyrir starfsliðinu.

  Opin skoðanaskipti

  Mikilvægt er að námskeiðið snúist um að varpa skýru ljósi á breiddina í viðfangsefnunum þannig að umfjöllun starfsliðsins sé ekki beint í eina ákveðna átt strax frá upphafi. Lýðræðisleg menning og það að koma í veg fyrir hópfjandskap eru lykilhugtökin í Dembra en með þeim gefst kostur á að taka til umfjöllunar fjölbreytt úrval umfjöllunarefna: rasisma, gyðingahatur, íslamsfælni, aðra fordóma, öfgahyggju og innrætingu öfgaskoðana (róttæknihæningu), hatursfull ummæli, orðaval, klíkumyndanir í skólanum, að skilja engan útundan, þátttöku nemenda eða annað.

  Ábyrgð Dembra-hópsins

  Dembra-hópurinn ber ábyrgð á námskeiðshaldinu en semur við Dembra-leiðbeinanda skólans um mögulega þátttöku í námskeiðinu. Hópurinn þarf einnig að sjá um að safna saman niðurstöðum námskeiðsins og vinna úr þeim þannig að þær geti komið til umfjöllunar þegar hópurinn ákveður hvaða verkefni skólinn skuli leggja áherslu á.

  Tillögur að skipulagi funda

   

  1. hluti – Upplýsingar um Dembra

  • Helstu þemasvið og forsendur Dembra auk meginreglna Dembra um forvarnir
  • Kynning á dagatali um framkvæmd
  • Upplýsingar um hlutverk Dembra-hópsins

  2. hluti – Námskeið í hópum

  1. Hver hópur fyrir sig fær meginreglur afhentar.
  2. Rætt er saman í hópum og fólk miðlar reynslu sinni af sterkum og veikum hliðum skólans. Sjá spurningar til umræðu síðar. Hóparnir skrifa hjá sér minnispunkta, á blað eða tölvu.
  3. Gefið ykkur tíma til að ganga um og skiptast á hugmyndum. Sé notast við blað geta kennararnir gert skriflegar athugasemdir hver hjá öðrum.
  4. Ef niðurstöður spurningalistans liggja fyrir er hægt að kynna og fjalla um niðurstöðurnar. Hvaða mikilvægan lærdóm má draga af kortlagningunni?
  5. Dembra-hópurinn safnar blöðunum saman eða fær senda fundargerð frá námskeiðinu og hagnýtir sér hana í frekari mótun á áherslusviðum skólans og Dembra-áætluninni.

   

  Spurningar til umræðu:

  a) Hvaða viðfangsefni bíða skólans á sviði hópfjandskapar og umburðarleysi?
  b) Hvaða úrræði hefur skólinn til að takast á við þau?
  c) Hvert ætti markmiðið með þátttökunni í Dembra að vera?
  d) Hvernig er hægt að notfæra sér meginreglur Dembra og niðurstöður úr spurningalistanum í til dæmis:
  Námsáætlunum greina
  Aðgerðaáætlunum
  Ársáætlunum
  Reglum um hegðun
  Öðru

 • 4 Fundur haldinn með fulltrúum nemenda

  Lögð er fram tillaga að hópfundi nemenda til þess að staðfesta Dembra-átaksverkefnið. Skólinn tekur sjálfur um það ákvörðun hvort fulltrúar í nemendaráði eða aðrir nemendur skólans skuli vera fulltrúar nemenda. Skólinn tekur um það ákvörðun í samráði við Dembra-leiðbeinandann hvort leiðbeinandinn eða skólinn sjálfur haldi fundinn.

  Fundur með fulltrúum nemenda er hluti kortlagningarferlisins. Fundurinn er haldinn eftir að skólinn hefur fengið niðurstöður spurningalistans í hendur svo hægt sé að ræða niðurstöðurnar við fulltrúa nemenda. Hvatt er til þess að fundarmenn leggi fram, á grundvelli eigin reynslu og umræðna nemenda, hugmyndir sínar og tillögur að verkefnum sem starfsliðið getur nýtt sér í starfinu áfram. Þannig er Dembra-verkefnið staðfest hjá bæði nemendum og kennurum í samræmi við meginreglur Dembra um samfélag fyrir alla, þátttöku og staðfestingu. Líta má á fundinn með nemendum sem upphafsreit frekari þátttöku þeirra í starfinu.

  Ætla þarf fundinum að minnsta kosti klukkutíma. Við leggjum eftirfarandi fundarefni til:

  • Hvað er Dembra?
   Dembra-verkefnið og það sem í því felst er kynnt nemendum.
  • Hvað er „góður skóli“?
   Nemendur eru beðnir um að lýsa því með eigin orðum hvernig besta fáanlega umhverfi í skóla væri.
  • Hvernig er það í þínum skóla?
   Nemendur lýsa stöðu mála í innra umhverfi skólans eins og það er nú.
  • Hverju lýsir spurningalistinn?
   Fulltrúar nemenda fá tækifæri til að ræða niðurstöður könnunarinnar og gera athugasemdir við þær.
  • Hvernig vilja nemendur vinna með Dembra?
   Nemendur leggja svo fram tillögur að frekari aðgerðum á grundvelli mats nemendafulltrúanna sjálfra og umræðna um niðurstöður könnunarinnar.
 • 5 Að ákveða verkefnasvið

  Nú er kominn tími til þess að skólinn taki ákvörðun, á grundvelli þess sem fram hefur komið í kortlagningarferlinu, á hvaða svið skuli leggja áherslu í forvarnarstarfinu. Verkefnasviðin þurfa að snúast um einhverjar þeirra veiku hliða sem kortlagningin leiddi í ljós. Þau verða jafnframt forsenda frekari umræðu um forvarnaraðgerðir sem koma til greina, hvort sem um er að ræða framhald fyrri aðgerða eða mótun nýrra.

  Leiðsögn

  Unnið er með verkefnasviðin með leiðsögn og sjálfstæðu starfi Dembra-hópsins til skiptis.

  1. Fyrsta leiðsagnarlota

  Í þessari lotu fara Dembra-hópurinn og leiðbeinandi yfir niðurstöður kortlagningarinnar: Spurningalistann, fundinn með fulltrúum nemenda og námskeiðið með kennurum. Fyrsta umræðan um verkefnasvið sem til greina koma fyrir skólann er haldin á grundvelli þessara niðurstaðna.

  2. Dembra-hópurinn mótar verkefnasvið

  Hópurinn ræðir áfram um verkefnasvið. Staðfesta þarf tillögurnar sem hópurinn leggur fram með rökræðum innan teymis/skólastigs. Þegar samkomulags hefur náðst innan hópsins eru niðurstöður skráðar á vefsetrið „Dembra-árið okkar“. [krækja]

  3. Önnur leiðsagnarlota

  Í þessari lotu er fjallað um aðlögun og mögulega forgangsröðun verkefnasviða. Auk þess eru hinar ýmsu aðgerðir ræddar sem komið geta til greina á verkefnasviðunum.

  4. Verkefnasvið ákveðin

  Dembra-hópurinn þarf að staðfesta aðlögun verkefnasviðanna gagnvart skólastjórninni áður en verkefnasvið eru lögð fram á vefsetrinu „Dembra-árið okkar“. [krækja]

   

 • 6 Dembra-verkefnið rætt á stigum/í deildum

  Skólinn hefur nú tekið ákvörðun um verkefnasvið starfsins að forvörnum gegn hópfjandskap. Hvað er þegar í gangi á umræddum verkefnasviðum? Hvað má gera öðruvísi? Hvaða nýjar aðgerðir vill skólinn reyna?

  Þessar spurningar þarf að ræða á ýmsum vettvöngum innan skólans. Við mælum með því sem lágmarksaðgerðum að annað hvort árgangahópar/teymi eða fagdeildir rökræði hvort áhugi sé fyrir hendi að gera eitthvað á þeim verkefnasviðum sem skólinn hefur kosið sér.

  Teymið eða deildin getur rætt aðgerðir á mörgum stigum. Sem dæmi má nefna að fara í gegnum kennsluáætlun frá dembra.no eða nýta sér önnur úrræði sem tengjast verkefnasviðinu. Um gæti verið að ræða aðgerðir til að auka færni kennara, fara í gegnum kennsluefni/námsbækur eða vinna með leiðir til að móta skóla án aðgreiningar eða gagnrýna hugsun.

  Teymið eða deildin ætti einnig að velta fyrir sér verkefnum í skólanum sem heild. Um gæti verið að ræða verkefni sem þegar hafa komið til framkvæmda í skólanum eða tillögur að nýjum verkefnum. Sem dæmi má nefna endurskoðun á reglum um hegðun og framkomu eða aðgerðaáætlun gegn niðurlægjandi framkomu/einelti. Til greina kemur að endurskoða eða ræða fyrirkomulag vináttuviku, ferða eða annarra viðburða, skipulag sérstakra daga, foreldrafunda og annars.

  Dembra-hópurinn ber ábyrgð á því að safna inn hugmyndum teyma/deilda og, ef við á, frá öðrum aðilum og vinna áfram að framkvæmdinni. Hægt að taka beint upp í Dembra-áætlunina (sjá næsta atriði) tillögur að aðgerðum sem bara eiga við um þrep/deild (t.d. kennsluverkefni). Dembra-hópurinn þarf að ræða tillögur sem varða önnur stig eða skólann í heild sinni við þá aðila sem málið varðar (svo sem skólastjórnendur, nemendaráð eða foreldraráð.

 • 7 Að móta Dembra-áætlun

  Dembra-ætlunin á að vera yfirlit yfir aðgerðir tengdar verkefnasviðunum sem skólinn kaus sér. Áætlunin getur varðað bæði verkefni í vinnslu og nýjar aðgerðir.

  Hér er hægt að sækja áætlunina: word pdf

  Dembra-hópurinn mótar áætlunina en skólastjórnin þarf að staðfesta endanlega mynd hennar.

  Þegar Dembra-hópurinn hefur lagt fram tillögu að áætlun er skipulagður fundur með leiðbeinandanum um leiðsagnarlotu, annað hvort á netinu eða með samkomu.

  Fimm atriði til að hafa í huga

  1. verkefnasviðin: Aðgerðirnar sem þið leggið til verða að mæta áskorunum eða þörfum samkvæmt verkefnasviðum skólans.

  2. Dembra-meginreglurnar: Hvaða forvarnir eru fólgnar í aðgerðunum? Dembra-meginreglurnar eru í raun viðmið um hvernig forvarnir gagnast eða hvernig móta skuli aðgerðir. Notið þær sem umræðupunkta þegar aðgerðir eru rökræddar: Dregur það úr eða eyðir aðgreiningu? Stuðlar það að gagnrýnni hugsun?

  3. Mismunandi stig: Reynið að skilgreina aðgerðir á hinum mismunandi stigum í starfsemi skólans, allt frá kennslu í kennslustofum til símenntunar kennara og áætlana til lengri tíma litið. Hér má finna meira lestrarefni um mismunandi stig skólans.

  4. Aðgerðir sem í gangi eru: Dembra-áætlunin á ekki eingöngu að fela í sér nýjar aðgerðir heldur líka það sem þegar er í gangi í skólanum. Síðan verður hægt að þróa þær áfram á forsendum Dembra-meginreglnanna.

  5. Tímamörk: Sumum aðgerðanna má hrinda í framkvæmd fljótlega, aðrar standa lengur yfir. Áætlunin getur byggst á hvoru tveggja og því er ekki þörf fyrir ákveðna lokadagsetningu.

   

  Um reitina í áætluninni

  Aðgerðir

  Hér skráið þið verkefnið sem stefnt er að. Um getur verið að ræða frumkvæði að nýjum aðgerðum eða aðgerðir sem skólinn hefur staðið fyrir áður og sem tengjast verkefnasviðinu. Aðgerð getur verið umfangsmikil eða lítil. Sem dæmi um umfangsmikla aðgerð má nefna mótun nýrrar áætlunar um starf á sviði sálfélagslegs umhverfis, dæmi um litla aðgerð gæti verið vaktalisti kennara í matsal nemenda.

  Dembra-meginreglur

  Hér er skráð til hverra af Dembra-meginreglunum fimm aðgerðin nær að ykkar mati. Aðgerðin getur varðar eina eða fleiri meginreglur. Aðgerðin má þó ekki ganga gegn einhverri meginreglunni, það væri þá ummerki um að aðgerðin yrði ekki forvörn.

  Niðurstöður sem vænst er

  Þegar aðgerð er metin er hægt að bera það mat saman við niðurstöður sem vænst var til að gera sér grein fyrir því hvort hún sé vel heppnuð, hvort það þurfi að gera á henni breytingar eða hvort henni skuli hætt. Reynið að komast í sameiningu að ákveðinni niðurstöðu um það sem stefnt er að með einmitt þessari aðgerð. Getur ákveðinn fjöldi foreldra sem mætir á fundi foreldrafélagsins verið markmið? Eða hve margir foreldrar gefa foreldrafundi skólans broskarl að honum afloknum? Hafa kennararnir sjálfir metið kennslufyrirkomulag vel heppnað eða hafa nemendur verið spurðir um það?

  Þátttakendur

  Hverjir taka þátt í aðgerðinni? Eru það allir nemendur skólans eða ákveðinn árgangur? Kennarar eða stjórnendur?

  Ábyrgur

  Hér er skráð hver ber ábyrgð á því að aðgerðin sé framkvæmd. Annað hvort skal tilgreina í reitnum nafn einstaklings eða heiti skipulags hóps í skólanum, t.d. árgangateymi 10. bekkjar. Sá einstaklingur eða hópur sem hér er skráður skipuleggur næsta stig aðgerðarinnar og hrindir henni í framkvæmd. Þess vegna er mikilvægt að þeir sem málið varðar geri sér glögga grein fyrir skiptingu ábyrgðarinnar.

  Dembra-hópurinn eða einstaklingar í honum geta líka tekið á sig ábyrgð á aðgerð en það gætu aðrir líka gert og þá fengið það sem verkefni frá skólastjórninni.

  Skjalfesting

  Hvernig ætlið þið að skjalfesta aðgerð sem hrint er í framkvæmd? Verður einföld skýrsla skrifuð? Setjum við upp síðu á vefsetri skólans? Verður kynning á félagsmiðlum? Eða annars konar skjalfesting?

  Athugið að skjalfesta þarf í stuttu máli á sérstökum eyðublöðum þær aðgerðir sem valdar eru til leiðsagnar, sjá næsta lið. Aðrar aðgerðir eru skjalfestar eins og hverjum og einum hentar

 • 8 Framkvæmd og leiðbeiningar um aðgerðir

  Þegar skólastjóri hefur samþykkt Dembra-áætlunina þarf að hrinda aðgerðunum í framkvæmd hverri fyrir sig. Það ræðst af eðli og umfangi aðgerða hvernig að því er staðið. Dæmi um aðgerðir sem fremur auðvelt er að hrinda í framkvæmd er að nýta sér efni af dembra.no. Það kallar hins vegar á vandaða framkvæmd að endurskoða til dæmis aðgerðaáætlun skólans vegna niðurlægingar og móðgana. Umfangsmeiri aðgerðir kalla á sérstaka verkefnishópa, framvinduáætlanir og tímafresti. Fella þarf tímamörkin að þessu og getur þá verðið um að ræða eitt eða fleiri skólaár.

  Einhverjar aðgerðir þarf þó að hefjast handa með á þeim tíma sem skólinn er tengdur Dembra. Um getur verið að ræða tvö eða þrjú afmörkuð verkefni Dembra-hópsins sem síðan er fjallað um á fundi leiðbeinanda með Dembra-hópnum. Dembra-hópurinn ákveður í samráði við leiðbeinanda sinn hver verkefnin verða.

  Dembra-hópurinn mótar forsendur fyrir leiðsögnina með því að leggja fram stuttar skýrslur um hvert og eitt verkefni þar sem leiðsagnar er þörf.

 • 9 Færni starfsliðsins í starfi aukin

  Dembra-hópurinn ber ábyrgð á því að starfsliðið afli sér aukinnar færni í starfi sem þætti í Dembra. Starfsmannafundum er nánar lýst í flipanum Viðfangsefni á fundum starfsmanna. Þeir skólar sem vinna Dembra á netinu geta nýtt sér powerpoint-skjölin og lýsingarnar á þessum síðum. Þeir skólar sem byggja starfið á fundum geta fengið heimsókn Dembra-leiðbeinenda sem halda námskeið fyrir starfsliðið.

  Markmiðið með fundunum er að:

  • deila reynslu í tengslum við bæði sterkar hliðar og áskoranir í starfi skólans að lýðræði og forvörnum gegn hópfjandskap,
  • vinna að þátttöku, gagnrýninni hugsun og færni í margbreytileika sem meginreglum forvarnarstarfs,
  • finna færnimarkmið sem tryggja forsendur til starfs með þessar meginreglur,
  • gera nokkrar raunhæfar æfingar og kynnast fræðsluúrræðum á dembra.no
 • 10 Mat og lagfæringar vegna framhaldsverkefna

  Dembra-hópurinn vinnur vandað mat á lokafundi sínum og sendir Dembra-leiðbeinanda sínum samantekt. Hópurinn skoðar einnig hvernig hægt sé að halda áfram forvarnarstarfi innan skólans.

  Gott væri að halda 3. skólafund fyrir þennan fund og fá á hann utanaðkomandi fyrirlesara/leiðbeinanda. Á þessum fundi er allt starfslið skólans látið taka þátt í matsferlinu og kennarar geta lagt fram tillögur um framhaldið starfsins og lagfæringar á því á grundvelli meginreglna Dembra í forvarnarstarfinu.

  Hér er tillaga að fyrirkomulagi matsfundarins:

   

  Leggið mat á starfið hingað til. Hvað gekk upp / gekk ekki upp?

  • Skoðið áþreifanleg verkefni sem skólinn hefur unnið með (Dembra-áætlunina):Hvernig hafa þessar aðgerðir virkað? Höfum við nálgast markmiðin með aðgerðunum eða ekki?
  • Hvernig hafa verkefnin stuðlað að styrkingu vinnunnar með meginreglur Dembra?

   

  Hvernig getum við haldið áfram að styrkja starfið að forvörnum?

  • Hvað viljum við halda áfram með og hvernig? Er eitthvað sem við viljum bæta?
  • Hvernig er staðan í skólanum núna? Eru nýjar þarfir komnar fram og höfum við nýjar hugmyndir um forvarnarstarf í ljósi meginreglna Dembra?

   

  Íhugið framkvæmd faglegs samstarfs í skólanum

  • Hvernig virkar samstarfið á milli kennara og kennara/stjórnenda þegar kemur að framkvæmd aðgerða? Hvað er hægt að bæta? Hvernig styrkjum við skólann til að fylgja eftir verkefnum?
  • Dembra-hópurinn fær senda fundargerð matsferlisins.