Fordómar, fjandskapur og hatur

Enginn er alveg laus við fordóma. Það getur þó virst vera mikill munur á þeim fordómum sem við öll höfum og því öfgafulla hatri sem einstaka menn tjá. Þarna er þó margt sameiginlegt hvað grunninn varðar. Stikkorðin eru sammannlegar þarfir fyrir samsömun og það að tilheyra, fyrir samhengi og tilgang. Finna má námsefni og önnur úrræði sem fjalla um áþreifanlega fordóma undir flipanum „Rasismi, gyðingahatur og hópfjandskapur“.

 • Hvað eru fordómar?

  Flýtivalmynd

  Fordómar eru hugmyndir um aðra sem byggjast á fyrir fram gefinni afstöðu til þess hóps sem þeim er samsamað við. Um er að ræða afstöðu til fólks sem byggist eingöngu á bakgrunni hópsins sem þeim er samsamað við en ekki á persónulegum eiginleikum þess.

  Það má lýsa því þannig að fordómar læsi einstaklinga í viðjar hóps, ekki á grundvelli álits einstaklingsins sjálfs um hvaða hópi hann eða hún tilheyri heldur á grundvelli fordóma þess sem flokkar viðkomandi til þessa hóps.

  Öllum hættir til þess að hafa fordóma

  Fordómar byggjast á almennum ferlum, kostum og göllum mannlegs hugsunarháttar og því hvernig við öflum okkur þekkingar. Á þetta meðal annars benti Gordon Allport í hinu sígilda riti sínu frá 1954, The Nature of Prejudice. Fordómar eru sem sagt ekki eitthvað sem sumir hafa og aðrir eru lausir við því öllum hættir til þess að hafa fordóma.

  Öll búum við yfir fordómum sem hægt er að draga úr með því að gera stöðugt athugasemdir við þá og gagnrýna.

  Markmiðið er ekki endilega það að losna við alla fordóma. Það ætti frekar að snúast um það að draga úr fordómum, gera stöðugt athugasemdir við fordóma okkar og gagnrýna og ekki síst að takast á við tilhneiginguna til fordóma þannig að annað fólk verði eins lítið fyrir þeim og mögulegt er.

  Almenn gangvirki í mótun fordóma

  Hver eru þá helstu almennu gangvirkin í mótun fordóma? Allport benti annars vegar á tilfinningalega þætti sem tengjast þeirri þörf að tilheyra hópi og vita hver við erum. Hann lagði jafnframt ekki síður áherslu á það vitræna í tengslum við það hvernig við flokkum og skipuleggjum sýn okkar á raunheiminn.

  „Við“ og „hinir“

  Menn eru félagsverur sem skilgreina sig út frá afstöðu til annarra. Við samsömum okkur öðrum með því að vita hvar við heyrum til og hverjum við líkjumst. „Ég“ skilgreini mig miðað við hópinn „okkur“ sem ég lít svo á að ég tilheyri. Í félagssálfræði er oft notast við hið hlutlausa hugtak nærhópur. Nærhópur getur verið af ýmsu tagi, allt frá fjölskyldunni sem við vitum allt frá blautu barnsbeini að við tilheyrum og til víðtækari hópa á borð við þjóð eða jafnvel mannkyn allt. Fordómar snúast um þörfina fyrir að skilgreina nærhópinn, „okkur“, í ljósi þess hver hann er ekki með hugmyndum um fjærhópinn, „hina“.

  Hugmyndirnar um „hina“ geta verið neikvæðar eða einkennst af hatri en þurfa ekki að vera það.

  Hugmyndirnar um „hina“ geta verið neikvæðar eða einkennst af hatri en þurfa ekki að vera það. Sé litið á „hina“ sem óvinveitta ógn getur það styrkt samstöðu „okkar“ en það er þekkt staðreynd að hægt er að móta a.m.k. tímabundna samstöðu ólíkra samfélagshópa með því að hvetja til samstöðu gagnvart utanaðkomandi óvini. Jákvæðar hugmyndir um „hina“ geta þó líka verið til staðar þrátt fyrir samsömun „okkar“ og það að tilheyra hópi. Það er til dæmis vel mögulegt að eiga sér sterkar og djúpar fjölskyldurætur án þess þó að hata aðrar fjölskyldur.

  „Hinir“ eru líkari en „við“

  Það hefur engu að síður verið dregið fram í ýmsum tilraunum hvernig við metum hópinn „okkur“ á annan hátt en „hina“, einkum hvað tvennt varðar. Í fyrsta lagi hættir okkur til þess að meta þann hóp sem við samsömum okkur við á mun jákvæðari hátt en „hina“. Í öðru lagi álítum við aðra hópa vera líkari innbyrðis og einsleitari en okkar eigin hóp. Gott dæmi um þetta er hvernig orðið Afríkani er gjarna notað í Noregi til þess að lýsa samsömun einstaklings á meðan hugtakið Evópubúi er nær aldrei notað á þann hátt. Um er að ræða sambærileg hugtök en frá norskum sjónarhóli séð er auðveldara að sjá evrópska fjölbreytni en afríska. Sú tilhneiging að líta á aðra hópa sem einsleitari en sinn eigin snýst um neikvæð einkenni. Ef við komum auga á ákveðin neikvæð einkenni hjá einstaklingum í nærhópi okkar er gjarna bent á fjölbreytni og breytileika innan hópsins. Þetta ákveðna atriði einkennir einn eða fleiri einstaklinga en ekki hópinn sem heild. Hvað „hina“ varðar hættir okkur hins vegar til þess að meta allan hópinn sem heild á grundvelli þátta hjá einhverjum einstaklingum innan hans.

   

 • Alhæfingar, flokkar og staðalímyndir

  Flýtivalmynd

  Við verðum að flokka umheiminn á ýmsan hátt til þess að geta áttað okkur á honum. Flokkunin byggist á alhæfingum, við leggjum t.d. áherslu á það sem ólíkir hundar eiga sameiginlegt fremur en það sem aðskilur hvað hópinn hunda varðar. Flokkun af því tagi er forsenda vísindalegrar hugsunar, að minnsta kosti síðan Carl von Linné kynnti sína eigin flokkunarfræði jurtaríkisins. Það er í sjálfu sér ekkert að alhæfingum sem slíkum. Það getur líka verið gagnlegt að alhæfa um hópa manna eins og við gerum við kaup á gjöf handa þriggja ára barni eða þegar selja á sem flest dagblöð.

  Horfum á einstaklinginn, ekki hópinn

  Alhæfingin felur þó jafnframt í sér hættu á því að litið sé fram hjá breytileika og þar með að missa sjónar á séreinkennum einstaklingsins.

  Alhæfing felur í sér hættu á því að litið sé fram hjá breytileika og þar með að missa sjónar á séreinkennum einstaklingsins.

  Kennarar eru vel þjálfaðir í því að beina sjónum að nemendum sem einstaklingum fremur en nærhópi hans. Við leggjum áherslu á að uppfylla þarfir og óskir einstaklingsins en ekki að draga alla í sama dilk. Við alhæfum þó engu að síður og við höfum örugglega flest okkar orðið hissa á einhverju í fari ákveðins einstaklings sem gengur þvert á þær væntingar sem við höfðum í krafti alhæfingar.

  Staðalímyndir

  Þegar við kynnumst einstaklingi þannig gefst okkur kostur á því að leiðrétta alhæfingar okkar og tækifæri til að víkka út skilning okkar á viðkomandi hópi eða skilning okkar á breytileikanum innan nemendahópsins. Það gerist hins vegar því miður oft að við viðhöldum alhæfingunni en lítum á viðkomandi einstakling sem undantekningu. Þá er komið að næsta vitræna þættinum í mótun fordóma, staðalímyndum. Staðalímynd er niðurnjörvuð alhæfing, það er hugmynd um hóp sem ekki breytist eða er aðlöguð í ljósi nýrra staðreynda eða umgengni við fólk.

  Staðalímynd er niðurnjörvuð alhæfing, það er hugmynd um hóp sem ekki breytist í ljósi nýrra staðreynda.

  Það er reyndar mögulegt að einstaklingur sé undantekning frá almennri tilhneigingu í hópi. Það þarf ekki að vera slæmt að halda sig við alhæfingar, svo fremi sem fólk sé opið fyrir því að mæta undantekningum. Breytist hugmyndir um hópinn ekki þrátt fyrir greinileg dæmi séu um að þær séu rangar, færir það alhæfinguna þó upp á nýrra og alvarlegra stig.

  Forvitni og gagnrýnin hugsun gengur gegn staðalímyndum

  Við búum yfir tilhneigingu til þess að móta staðalímyndir en besti mótleikurinn gegn því er að leika forvitni á að kynna sér blæbrigði og rangtúlkanir, beita gagnrýninni hugsun og sjálfsíhygli og að gera sér grein fyrir því að allar alhæfingar eru einföldun og þannig verður okkur eðlilegt að leiðrétta þær.

  Þar mætast tilfinningalegir og vitrænir þættir í mótun fordóma. Því er lýst hér að ofan hvernig við skilgreinum okkur, hópinn okkar og þá sem við tilheyrum með því að draga fram muninn á okkur og „hinum“. Af því leiðir að breyting á myndinni af „hinum“ hefur einnig áhrif á myndina af okkar eigin hópi og jafnvel okkur sjálfum. Það er miklu flóknara ferli að breyta sjálfsmynd sinni en að leiðrétta ranghugmynd um eitthvað sem engu máli skiptir. Sem sagt: staðalímyndir um aðra eru lífsseigar því þær skilgreina líka það sem við sjálf erum.

  Tökum dæmi: Fótbolti er mikilvægur í samsömun margra unglinga. En stundum er fyrirlitning á fótbolta forsenda samstöðu og samsömunar. Raunverulegar ástæður þessarar fyrirlitningar eru eitt en oft er hún studd hugmyndum um að knattspyrnumenn séu til dæmis einfaldir og ruddalegir menn sem bara hugsi um peninga. Hitti menn svo knattspyrnumann sem bæði er hugsandi og notalegur, ögrar það bæði hugmyndinni um þennan hóp og hugmyndum félaga hópsins um sjálfa sig og hverjir þeir í raun eru. Þess vegna þarf mikið að ganga á svo hópurinn viðurkenni að knattspyrnumenn eru fjölbreyttur hópur.

 • Hópfjandskapur

  Flýtivalmynd

  Hópfjandskapur er samheiti á jaðarsetningu ýmissa hópa, allt frá rasisma og gyðingahatri til hommafóbíu og fordóma gagnvart fólki með líkamlega skerðingu. Þeir sem sýna einum hópi fjandskap eru einnig líklegir til þess að hafa fjandsamleg viðhorf gagnvart öðrum hópum.

  Samhengi hópfjandskapar af ýmsu tagi

  Árið 2011 birtust niðurstöður rannsóknarinnar «Intolerance, prejudice and discrimination. A European report». Þær sýna að samhengi er á milli sex ólíkra birtingarmynda hópfjandskapar, hommafóbíu, íslamsfóbíu, (líffræðilegs) rasisma, gyðingahaturs, fjandskapar gagnvart innflytjendum og kvenhaturs. Fólk með hátt skor í einni mynd hópfjandskapar fær einnig hátt skor í öðrum myndum hans. Jafnvel þótt fordómar séu af ýmsum toga er þar um samhengi að ræða. Fræðimennirnir sem unnu rannsóknina nota hið læknisfræðilega hugtak heilkenni (syndrome) til að lýsa samhenginu. Með heilkenni er átt við hóp einkenna sem oft birtast saman. Fræðimennirnir halda því á sama hátt fram að hópfjandskapur sé heilkenni vegna þess að ýmsir fordómar birtast oft saman.

  Fólk með hátt skor í einni mynd hópfjandskapar fær einnig hátt skor í öðrum myndum hans.

  Niðurstöðurnar benda til þess að heilkennið tengist hugsunarhætti valdboðs, valdskipaðri samfélagssýn og andstöðu gegn fjölbreytni. Fordómarnir tengjast þannig andlýðræðislegum eða ólýðræðislegum skoðunum ásamt vantrú á flutningum fólks landa á milli og þeirri sýnilegu fjölbreytni sem hún leiðir til.

  Forvarnir fela í sér tilboð um öryggi

  Því má slá föstu að flokkurinn fjandskapur á grundvelli hóps nær til þess andlýðræðislega og öfgafulla en einnig til almennari afstöðu til útilokunar. Þetta er athyglisvert í ljósi þeirra forvarnarráða sem lögð eru til í ljósi rannsóknanna. Ráðin byggjast á því að gera sér grein fyrir því að mikilvægasta hlutverk fordóma og fjandskapar á grundvelli hóps er að færa hópnum samsömun og samstöðu, þá skýru hugmynd að „við“ stöndum saman gagnvart ógnum „hinna“.

  Fjandskapur á grundvelli hóps færir félögum hans samsömun og samstöðu með því að útiloka aðra.

  Rannsóknirnar benda til þess að tilfinningin fyrir óöryggi geti byggst á áþreifanlegum þáttum á borð við atvinnuleysi og efnahagslega niðursveiflu. Evrópsk samfélög glíma því við þá það grundvallarverkefni að bjóða íbúum sínum öryggi með öðrum hætti en þeim að útiloka minnihlutahópa eins og fjandskapur á grundvelli hóps byggist á.

 • Fordómar, mismunun og völd

  Flýtivalmynd

  Fordómar geta fært fólki rökstuðning fyrir skekkjum og ójafnri skiptingu valda í samfélaginu. Þannig færa þeir mismunun lögmæti sitt.

  Algengar hugmyndir um ákveðinn samfélagshóp geta gert að verkum að meirihlutinn sættir sig við mismunun þeirra sem af einhverjum ástæðum tilheyra ákveðnum hópi eða hópum. Sem dæmi um þetta má nefna hvernig sígild kynþáttahyggja færði nýlendustefnu og þrælahaldi lögmæti sitt eða hvernig munurinn á kynjunum var notaður til að rökstyðja mismunun þeirra.

  Breytt afstaða getur þýtt að menn verða að gefa frá sér völd, stöður og fordóma af ýmsu tagi.

  Oft er það lítt fýsilegur kostur að leiðrétta fordóma þegar þeir eiga þátt í því að viðhalda skekkju og færa einstaklingnum forréttindi. Breytingar geta þýtt að menn verða að gefa frá sér völd, stöður og forréttindi af ýmsu tagi. Ef menn til dæmis gefa upp á bátinn þá hugmynd að konur séu hæfastar til að annast hús og heimili þýðir það að þær þurfa að fá meira rými í atvinnulífinu.

  Bein og óbein mismunun

  Hefðbundin mismunun annarra en Evrópubúa er bein, það er að komið er fram við ólíka hópa á mismunandi hátt. Mismunun getur þó líka verið óbein þannig að þegar komið er fram við ólíka hópa á sama hátt getur það leitt til skekkju vegna þess munar sem er á hópunum.

  Dæmi um það eru reglur um nýliða í hernum þar sem gerð er krafa um lágmarkshæð. Karlar eru að jafnaði hávaxnari en konur og því ívilna reglur af því tagi körlum þótt reglan sé í sjálfu sér eins fyrir alla.

  Fordómar geta leynt mismunun

  Mismunun kvenna og fólks sem upprunnið er utan Evrópu hefur löngum verið ótvíræð og átt sér stað opið og meðvitað. Mismunun er þó líka stundum undirskilin, það er að þeir sem mismuna skilja ekki sjálfir þær gerðir sínar og hafa jafnvel engan sérstakan áhuga á því að mismuna. Þá getur verið um að ræða algenga fordóma í samfélagi sem gera að verkum að mismununin sést ekki eða illa.

  Ómeðvitaðir fordómar geta stuðlað að undirskilinni mismunun.

  Sem dæmi um undirskilda mismunun má nefna að nafn umsækjanda hefur mikil áhrif á það hvort viðkomandi er kallaður inn til starfsviðtals eða ekki. Kannanir í Ósló, Stavanger, Bergen og Þrándheimi hafa leitt í ljós að 20-25% minni líkur eru á að atvinnuveitendur hafi samband við starfsumsækjendur með pakistanskt nafn en hefðbundið norskt nafn, jafnvel þótt þeir uppfylli öll skilyrði um hæfni (Birkelund o.fl. 2015). Sumir atvinnuveitendur hafa kannski neikvæða afstöðu til fólks með nöfn sem virðast vera pakistönsk en fræðimennirnir sáu einnig þannig mismunun hjá atvinnuveitendum sem ekki lýsa þannig skoðunum. Það þýðir að afstaða þeirra getur verið undirskilin, það er ómeðvituð.

  Mismunun í skólum

  Nú á dögum er mismunun bönnuð með lögum og viðmið um að mismuna ekki eiga sér djúpar rætur í norskum skólum. Kennarar eru þess mjög meðvitaðir og mega ekki mismuna á grundvelli kyns eða kynþáttar. Við vitum þó að óæskileg mismunun getur verið afleiðing ómeðvitaðrar afstöðu og það kallar á sjálfsíhugun: Kennarinn þarf að spyrja sig að því hvort flokkun hans og undirskildar hugmyndir um mismunun hafi áhrif á framkomuna við einstaklinga, hvort sem hún varðar pilta og stúlkur eða fólk af evrópsku bergi brotið eða ekki.

  Kannanir með nemenda sýna að nemendur skynja mismunun og óréttláta meðferð.

  Fleiri nemendur upplifa mismunun og óréttláta meðferð í skóla en einelti. Það sýndu niðurstöður rannsóknar á nemendum fram til 2012 þegar spurningar um mismunun voru fjarlægðar. Málið snýst um litla hópa sem gætu verið jaðarsettir. Sem dæmi má nefna að 2,4% nemenda sögðust verða fyrir mismunun vegna fötlunar en það er líklega stór hluti allra nemenda með fötlun í skólanum.

  Margir nemendur segjast verða fyrir mismunun af hálfu kennara

  Helmingur nemenda sem skynjað hafa mismunun eða ósanngjarna meðferð segja að mismununin hafi verið á ábyrgð kennara eða annarra fullorðinna í skólanum. Þetta stangast á við viðmið kennara um jöfnuð en undirstrikar hve mikilvægt það er að kennarinn íhugi sjálfur eigin skoðanir og framkomu sína við nemendur. Kennarinn getur haft afstöðu og mismunað án þess að gera sér beinlínis grein fyrir því og þess vegna er vel mögulegt að nemandi skynji raunverulega mismunun hjá kennaranum þótt hann geri sér ekki grein fyrir henni.

  Kennararnir eru auk þess fulltrúar samfélagsins í skólanum og hafa völd í krafti þessa. Þegar erfið staða kemur upp í bekk getur kennarinn engu að síður fundið til valdleysis og auðvitað gerist ýmislegt sem ögrar valdastöðu kennarans. Tengsl kennara og nemanda eru engu að síður ekki á neinum jafningjagrundvelli. Kennarinn ræður yfir ýmsum formlegum og raunverulegum aðferðum sem nemendur geta að vísu sett sig upp á móti en þeir geta ekki neytt kennara og skóla til að fara að vilja sínum á sama hátt og hinir síðarnefndu geta gert.

  Sjálfsíhugun til að koma í veg fyrir mismunun

  Sé valdaójafnvægi til staðar er sérstaklega mikilvægt að kennarar íhugi hugmyndir sínar um nemendur og að hvaða marki þær hugmyndir geta komið í veg fyrir að þeir skilji stöðu nemenda þannig að kennarinn geri sitt besta til að draga ekki nemandann niður.

  Sjálfsíhugun um eigin afstöðu og framkomu við nemendur getur dregið úr undirskilinni mismunun.

  Allir í samfélagi geta búið yfir fordómum af einhverju tagi. Fordómar studdir völdum eru þó miklu áhrifameiri en sameiginlegir fordómar lítils veikburða hóps í samfélaginu. Þegar völd bætast við jöfnuna geta fordómar haft áhrif á samfélagsskipulagið í heild sinni og stuðlað að því að færa mismunun lögmæti. Margir álíta þess vegna að víkka þurfi sjónarhornið á fordóma og láta það ná yfir hugtök á borð við forréttindi eða rasisma til þess að geta áttað sig á mismunun í samfélaginu. Það má lesa um það hér að það er rökrætt fram og til baka hvernig skilgreina skuli rasisma. Ein skilgreining miðast einmitt við rasisma sem samfélagslegt fyrirkomulag þar sem ákveðnir fordómar leiða til mismunandi samfélagsskipulags á grundvelli valda, það er formlegan rasisma.

  Þegar maður hefur gert sér grein fyrir að fordómar geta varpað hulu á samhengi, er mikilvægt að vilja stunda sjálfsskoðun, íhuga eigin hugmyndir og horfast í augu við að þær séu reyndar fordómafullar.

   

   

 • Faglitteratur

  Allport, Gordon W. (1979). The nature of prejudice. Unabridged, 25th anniversary utg.  Reading, Mass.: Addison-Wesley Pub. Co., (første utgave 1954).

  Birkelund, Gunn Elisabeth et al. (2014). «Diskriminering i arbeidslivet ; resultater fra randomiserte felteksperiment i Oslo, Stavanger, Bergen og Trondheim, Sosiologisk tidsskrift, vol. 22, no. 4.

  Dixon, John/ Mark Levine (2012). Beyond prejudice: extending the social psychology of conflict, inequality and social change.  Cambridge: New York : Cambridge University Press.

  Dovidio, John. F./ Glick, P. S./ Rudman, L. A. (2005). On the nature of prejudice : fifty years after Allport. Malden, MA: Blackwell Pub.

  Keen, Ellie/ Georgescu, Mara, Europarådet/ Det Europeiske Wergelandsenteret (2014). Bookmarks – en håndbok for forebygging av hatprat på nettet gjennom menneskerettserklæringen.

  Lenz, Claudia (2010). Konstruksjon av den andre – teoretiske og historiske perspektiver. Christhard Hoffmann, Øivind Kopperud (red.): Forestillinger om jøder – aspekter ved konstruksjonen av en minoritet. Oslo: unipub.

  Nilsen, Anne Birgitta. (2014). Hatprat. Oslo: Capellen Damm Akademisk.

  Røthing, Åse: Skolen som fordoms- og forebyggingsarena. I: Lenz, Claudia, Nustad, Peder & Geissert, Benjamin (red.). Dembra. Faglige perspektiver på demokrati og forebygging av gruppefiendtlighet i skolen. Oslo: HL-senteret: (36-47).

  Thuge, Stine/ Brøndum, Tine (2015). Forskellighed og fordomme – en lærebog til grundskolen om intolerance.

  Zick, Andreas/ Küpper, Beate/ Hövermann, Andreas. (2011). Intolerance, Prejudice and Discrimination. A European Report.

 • Andre pedagogiske ressurser

  Fordommer fordummer

  Nettsiden vil være ”en faktabasert myteknuserside, og skal bidra til å gjøre det offentlige ordskiftet på rasisme- og diskrimineringsfeltet opplyst.” Prosjektet har også egen facebookside.

  «Homo-horejøde-terroristsvarting» – sier vi

  Opplegg fra Den norske kirke for konfirmantlærere, mot rasisme, antisemittisme og fordommer. Mange gode øvelser knyttet til identitet.

  Bookmarks

  Undervisningsmateriell utviklet for Europarådets kampanje mot hatprat på nettet. 21 moduler for aktiviteter om fordommer, hatefulle ytringer på nettet og strategier for å skape en menneskerettighetskultur på nettet.

  Restart – Riv gjerdene!

  Et normkritisk metodemateriale i antidiskriminerende arbeid utviklet av Skeiv ungdom.

  A’ Adam’s Bairns?

  Skotsk ressurs om ulike utfordringer i samfunnet, deriblant fordommer og diskriminering (Unit 5). Flere gode øvelser, for eksempel øvelsen om stereotypisering.

Undervisningsopplegg