Rasismi, gyðingahatur og íslamsfælni

Rasismi og gyðingahatur eiga sér djúpar sögulegar rætur í Evrópu. Mikilvægt er að þekkja bæði söguna og hugmyndirnar sjálfar til að geta borið kennsl á þessi fyrirbrigði og skilið þau. Þetta á líka við um aðrar birtingarmyndir hópfjandskapar, svo sem íslamsfælni og fordóma gegn samkynhneigðum. Allar birtingarmyndir hópfjandskapar eiga sér ákveðin sameiginleg hlutverk í þeim tilgangi að færa fólki tilfinningu fyrir því að heyra til hóps, öryggi og tilgang. Hver hugmynd fyrir sig á sér þó sögu sem taka þarf alvarlega og þekkja til þess að skilja fyrirbrigðið. Veljið flipann „Fordómar, fjandskapur og hatur“ til að finna kennsluúrræði sem fjalla um fordóma almennt séð.

 • Rasismi

  Flýtivalmynd

  Rasismi og fjöldamorð

  Norðmenn gleyma ekki morðinu á Benjamin Hermansen. Fyrir því eru margar ástæður en sú augljósasta er að hann var myrtur eingöngu vegna húðlitar síns. Morðingjarnir lýstu sjálfum sér sem nýnasistum. En hér er fleira í borði en grimmdarlegt morð á saklausum dreng því það vekur upp minningar um undirokun og fjöldamorð verstu einræðis- og hryðjuverkaríkja síðari tíma. Upp í hugann koma Þýskaland nasismans, aðskilnaðarstefnan og Ku Klux Klan.

  Morðið á Benjamin minnir okkur á myrkustu sögu rasismans, sögu sem langflestir Norðmenn lýsa sig algjörlega mótfallna.

  Morðið á Benjamin minnir okkur á myrkustu sögu rasismans, sögu sem langflestir Norðmenn lýsa sig algjörlega mótfallna. Tengslin við þessa sögu eru hluti af þeirri skýringu á baráttunni um hugtakið rasisma sem við verðum vitni að um þessar mundir. Þegar fólk ber sér orðið rasisma í munn felur það ekki eingöngu í sér fræðilegan skilning á hugtakinu og túlkun þess, það nær líka yfir kúgun og fjöldamorð.

  Margur kennarinn hefur reynt á eigin skinni að það er óþægilegt að vera kallaður rasisti af nemendum, þannig að hugtakið er öflugra og áhrifaríkara en flest önnur. Tungumálið á sér mörg hugtök sem kannski væri einhvern tímann hægt að nota í stað þess: mismunun, hræðslu við útlendinga, fjandskap gagnvart útlendingum, þjóðrembing, útilokun. Þessi hugtök eiga það öll sameiginlegt að búa ekki yfir sama þrótti og orðið rasismi.

  Hvað er rasismi?

  Orðið rasismi vísar til orðanna rase/race (kynþáttar) og var fyrst tekið í notkun á fjórða áratug 20. aldar af andstæðingum hugmyndafræði nasismans en hún byggðist á kynþáttahyggju og gyðingahatri. Þrengri skilgreiningar orðsins vísa einmitt til hugmyndarinnar um kynþátt sem líffræðilegt fyrirbrigði. Íslensk orðabók (snara.is) gefur t.d. þessa skilgreiningu:

  sú skoðun að kynþættir hafi ólíka eiginleika og persónueinkenni manna (s.s. greind, hæfni og skapferli) ráðist fyrst og fremst af kynþætti
  – það álit að einn kynstofn sé öðrum æðri eða betri, rasismi.

  Sé orðið rasismi skilgreint á víðtækari hátt felur það í sér mismunun af ýmsu tagi sem ekki er endilega bundin við kynþátt. Sem dæmi má nefna samning SÞ um afnám kynþáttamisréttis frá 1966 en þar er „kynþáttamisrétti“ skilgreint sem:

  – hvers kyns aðgreining, útilokun, takmörkun eða forgangur sem byggður er á kynþætti, litarhætti, ætterni eða þjóðernis- eða þjóðlegum uppruna.

  Í bókinni „Hva er rasisme?“ frá 2015 skilgreina Bangstad og Døving rasisma sem hér segir: (1. kafli):

   1. Að flokka íbúa í mismunandi hópa sem sumum eru gefin neikvæð óumbreytanleg grundvallareinkenni.
   2. Að rýra samsömun einstaklings í átt að fyrir fram gefnum neikvæðum persónueinkennum ákveðins hóps.
   3. Að nota þessi neikvæðu persónueinkenni sem rök fyrir jaðarsetningu og mismunun.

  Þarna er rasismi skilgreindur sem eitthvað meira en annars vegar sem fordómar og hins vegar sem mismunun. Bangstad og Døving halda því fram að hugtakið rasismi tengi saman fordóma og mismunun, að það sé rasismi að láta fordóma vera rök fyrir mismunun.

  Rasismi sem slagorð

  Það kemur oft fram í rökræðum að menn eru ósammála um skilgreiningu hugtaksins rasisma. Rasismi er viðkvæmt þema og notkun hugtaksins fær fljótt pólitískan tón. Það getur þróast í slagorð, nokkuð sem þarf að skoða í ljósi blóðugrar sögu um kúgun í nafni rasisma. Líta má á líffræðilegan eða nútíma rasisma sem vestrænt fyrirbrigði. Þó er jafnframt hægt að halda því fram að rasismi í víðtækri merkingu sem fordómar sem færa mismunun lögmæti séu miklu eldra fyrirbrigði og til staðar í mörgum og fjölbreyttum samfélögum og heimshlutum.

  Í skoðuninni felst hugmynd um „okkur“ og „hina“ þar sem einstaklingar úr hópi „hinna“ geta aldrei orðið eins og „við“ eða hluti af hópi „okkar“.

  Í skoðuninni felst hugmynd um „okkur“ og „hina“ þar sem einstaklingar úr hópi „hinna“ geta aldrei orðið eins og „við“ eða hluti af hópi „okkar“. Skoðanir af þessu tagi eru oft útskýrðar á trúarlegum nótum, svo sem að „hinir“ séu fordæmdir af guðlegum krafti. Á okkar tímum snýst umræðan um hugtakið að miklu leyti um muninn á líffræðilegum rasisma og öðrum birtingarmyndum hans en það er m.a. þáttur í skýringunni á því hvers vegna svo mikil óvissa ríkir um merkingarlegt inntak hugtaksins. Það engu að síður ekki hægt að komast hjá þeirri staðreynd að hugtakið felur í sér hugrenningatengsl við þrælahald og fjöldamorð. Þetta skýrir hvers vegna oft er deilt á tilfinningaþrunginn hátt um notkun hugtaksins „rasisma“. Sögulegur merkingarblær hugtaksins færir því einnig styrk sinn. Þess vegna getur hugtakið hversdagsrasismi virst vera þversögn vegna þess að það er ekkert hversdagslegt við ofsóknir, þrælahald og fjöldamorð. Einnig eru til skyld hugtök á borð við „fjandskap gagnvart útlendingum“, „fordóma“, „ótta við útlendinga“, „mismunun“, „kerfislæga mismunun“ og „forréttindi meirihlutans“. Það ræðst af orðaforða viðkomandi, hvernig hún eða hann skilur kringumstæður og hver tilgangurinn með hugtakanotkuninni er hvaða hugtök eru notuð til lýsa ákveðnum aðstæðum.

  Helsta einkenni rasisma nú er að hvaða marki skoðun á ákveðnum hópi er fastmótuð eða að hópur sé skilgreindur með ákveðnum eiginleikum sem útilokað er að losa sig við.

  Segja má að helsta einkenni rasisma sé að hvaða marki skoðun á ákveðnum hópi er fastmótuð eða að hópur sé skilgreindur með ákveðnum eiginleikum sem útilokað er að losa sig við.

  Kerfislægur rasismi og hversdagsrasismi

  Þegar rasískar hugmyndir eru lagðar til grundvallar samfélagsskipulagi eins og gerðist á tímum aðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku fyrir 1994 er það annað en rasískar hugsanir og athafnir einstaklings. Michel Wieviorka hefur bent á fimm stig rasisma í ólíkum samfélögum (The Arena of Racism 1995, 5. kafli):

   1. Brautryðjandi rasisma er undirliggjandi rasismi (infrarasisme) sem einkennist fremur af fjandskap við útlendinga.
   2. Rasismi er brotakenndur en þó greinilega til staðar í samfélaginu, sem meðal annars kemur fram í skoðanakönnunum.
   3. Rasismi er pólitísk stefna, það er að rasískar skoðanir verða grundvöllur pólitískrar hreyfingar.
   4. Allsherjar rasismi er grundvöllur ríkisskipulags og forsenda útilokunar og ofsókna.

  Rasismi á fyrsta stigi hjá Wieviorka er oft kallaður hversdagsrasismi. Hversdagsrasismi er meira og minna ómeðvituð afstaða og atvik sem „hinir“ verða fyrir í samfélaginu. Fólk gæti litið þeldökka einstaklinga hornauga í strætó eða sett sig upp á móti því að fá þá í næsta nágrenni sitt.

  Saga rasismans

  Hugtakið rasismi kemur fyrst fram í belgísku fræðiriti árið 1922 í gagnrýni á hugmyndir um yfirburði germanska kynþáttarins. Hugtakið náði frekari útbreiðslu með bók þýska gyðingsins, kynfræðingsins og læknisins Magnusar Hirschfelds árið 1938 (kom út í Bandaríkjunum eftir andlát hans). Hirschfeld er einnig álitinn vera brautryðjandi baráttu okkar tíma fyrir réttindum samkynhneigðra. Gyðingurinn Hirschfeld var kynfræðingur, á móti rasisma og nasisma og frjálslyndur gagnvart samkynhneigð þannig að hann féll beint að hugmyndum nasismans um hinstu daga þar sem gyðingar og meðreiðarsveinar þeirra gerðu samsæri gegn þýsku þjóðinni í þeim tilgangi að deila henni og veikja með upplausn hefða og baráttu fyrir kynþáttablöndun í þeim tilgangi að ná svo völdum.

  Hugtakið kynþáttur/rasi hafði komið fram þegar 16. öld en snerist þá fremur um skyldleika. Líffræðilegur rasismi er oft tengdur við nýlendustefnu, þrælahald og aðskilnaðarstefnu en hann mótaðist á upplýsingaöldinni og festi rætur með þróun vísinda og nútímanum frá og með 18. öld. Þess vegna er líka hægt að kalla líffræðilegan rasisma nútíma rasisma. Kynþáttavísindin lögðu til flokkun manna á grundvelli sýnilegs líkamlegs mismunar og rasistar rökstuddu stigveldisskipað samfélag á grundvelli þeirrar flokkunar. Nútíma kynþáttavísindi mótuðu umfjöllun þar sem mannfræðilegur uppruni réði flokkun manna fremur en til dæmis trúarleg samfélög. Hér þarf þó að taka fram að nasistar fengu lítinn stuðning við hugmyndir sínar um herraþjóð hjá alvöru fræðimönnum á sviði kynþáttavísinda. Nasisminn byggðist á goðsögnum langt fram yfir það sem hægt var að rökstyðja í kynþáttavísindum (eða með mannfræðilegri vitneskju).

  Kynþáttaaðskilnaður með vísan til líffræði og menningar

  [Image: rasekart]

  Heimild: Deutsches Konversationslexikon, 1890.

  Kortið er að finna í þýskri alfræðiorðabók frá 1890. Þar er mannkyn flokkað í þrjá helstu kynþættina hvíta menn, svarta og mongólska. Á seinni hluta 19. aldar og á fyrri hluta þeirrar tuttugustu var almennt álitið í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum að flokka mætti mannkyn í greinilega aðskilda kynþætti á grundvelli líffræðilegra eiginleika og að evrópsk menning væri þar í hásæti. Vestrænn hugmyndaheimur var gegnsýrður af þeirri skoðun að þróun menningar væri háð líffræðilegum möguleikum hópsins.

  Sú skoðun að aðrir menningarheimar væru lægra settir og vanþroskaðir var undanfari líffræðilegs rasisma.

  Sú skoðun að aðrir menningarheimar væru lægra settir og vanþroskaðir var undanfari líffræðilegs rasisma. Hvítir Evrópumenn álitu að rekja mætti það sem þeim fannst vera lægra sett menning til lakari greindar. Nú virðist sú skoðun algeng að í sögulegu samhengi séð hafi líffræðilegur rasismi eingöngu snúist um líffræði. Þetta er mikill misskilningur. Álitið var að samhengi menningar og erfðaeiginleika væri öflugt.

  Flestir þekkja til kúgunar þeldökkra Afríkumanna á nýlendutímabilinu, í syðri hluta Bandaríkjanna og í Suður-Afríku en álíta ranglega að rasismi sé eingöngu vandamál þeldökks fólks.

  Svo virðist sem fólk þekki best til þess þáttar í rasismanum sem skapaði lögmæti kúgunar á þeldökkum Afríkubúum í evrópskum nýlendum, syðri hluta Bandaríkjanna og í Suður-Afríku. Það hefur leitt til þess misskilnings að rasisma sé eingöngu beint að þeldökku fólki. Rasíska heimsmyndin byggist á því að m.a. Rússar, Samar og Ínúítar séu lægra settir og af mongólsku bergi brotnir. Fólk af mongólska kynþættinum var talið vera dæmigerðir „stutthöfðar“. Það er alveg jafn ljóst á hörund og „langhöfðar“. Ekki er hægt að átta sig á sögulegum þáttum á borð við þá stefnu ríkisins að gera norska Sama að Norðmönnum og fjöldamorð nasistaríkisins á t.d. Pólverjum og Rússum án þess að þekkja til sögu rasískrar líffræði og rasismans. Samar voru t.d. hafðir til sýnis í dýragörðum undir lok 19. aldar. Almenn vestræn sýn á rasismann á árunum í kringum síðari heimsstyrjöld, og sem nasisminn byggðist á, var nokkuð blæbrigðaríkari en á kortinu frá 1890 en helstu drættir hennar falla samt ágætlega að því.

  Rasismi án kynþátta

  Rannsóknir á arfberum manna hafa í stórum dráttum sýnt að ekki er um mismunandi kynþætti manna að ræða. Það sýnilegu ytri einkenni sem áður gagntóku kynþáttavísindin, eru ekki í samræmi við innri einkenni sem aðeins er hægt að greina með háþróaðri rannsóknatækni. Það er með öðrum orðum ekki hægt að giska á líkur á blóðflokki manns á grundvelli húðlitar hans. Þeir eru þó til sem álíta að þekking á erfðafræðilegum breytileika manna á meðal skipti máli læknisfræðilega séð.

  Erfðavísindin hafa þó að nær fullu og öllu kippt stoðum undan kynþáttavísindunum og því ræða margir nú um „rasisma án kynþátta“.

  Erfðavísindin hafa þó að nær fullu og öllu kippt stoðum undan kynþáttavísindunum og því ræða margir nú um „rasisma án kynþátta“. Með því er átt við að flokkun í hópa byggist á öðrum viðmiðum nú (til dæmis á menningu, trúarbrögðum eða þjóðerni), jafnframt því að viðhorf, fordómar og aðferðir til kúgunar eru þær sömu og í líffræðilega (nútímalega) rasismanum. Þannig rök styðja við víðari skilgreiningu á rasisma sem meiru en bara mismunun á grundvelli kynþáttar.

  Unnið með rasisma í kennslu

  Rasismi verður um langa hríð tengdur grimmdarlegu ofbeldi í hugum fólks. Nemendur líta þó yfirleitt nú á rasisma sem nútímalegt fyrirbrigði sem snert getur alla sem ýmis gerendur eða fórnarlömb, saga hans er ekki aðalatriðið. Líklega sjá kennarar rasisma einkum í sögulegu samhengi, öfugt við nemendur. Það getur leitt til þess að nemendur og kennari skilji ekki alveg hverjir aðra í umræðum nema kennarinn sé vel meðvitaður um það hvernig hugtakið rasismi er notað og túlkað á mismunandi vegu.

  Mikilvægt er að þekkja til rasisma í sögulegu samhengi til þess að geta gert sér grein fyrir sígildum rasískum viðhorfum.

  Það er kostur að geta kennt um rasisma í ljósi bæði samtímans og sögunnar. Mikilvægt er að þekkja til rasisma í sögulegu samhengi til þess að skilja hve alvarlegur hann er og geta gert sér grein fyrir sígildum rasískum viðhorfum. Tökum dæmi: Nemandi spyr kennara hvort honum/henni finnist bananar góðir. Nokkrir í bekknum flissa. Þeldökkur nemandi flissar ekki. Kennarinn verður að þekkja til þeirrar gömlu hugmyndar um að þeldökkir Afríkubúar séu skyldari öpum en annað fólk til þess að geta greint stöðuna og metið til hvaða ráða skuli gripið. Reynt var að staðfesta þessi viðhorf vísindalega af vestrænum fræðimönnum á 19. öld og það átti þátt í að færa kúgun lögmæti. Hugmyndinni hefur verið algjörlega hafnað af vísindunum en hún er engu að síður afar lífsseig. Í ljósi þessara sögulegu staðreynda er því spurning nemandans miklu alvarlegri en hún hefði annars verið. Kennarinn getur valið að bregðast við henni á ýmsa vegu en ef hann/hún þekkir sögulegar tilvísanir orðsins „banani“ verður mun auðveldara að takast á við málið.

  Tökum annað dæmi: Nemandi kallar annan nemanda „kartöflu“. Áður fyrr var orðið notað um bændur í Hedmark í Noregi sem ræktuðu kartöflur. Nú er þetta skammaryrði í slangri norskra unglinga og er notað um fólk með ljósa húð. Þarna er líka um sögulegt samhengi að ræða. Munurinn er þó sá að sögulega samhengið hér er ekki nærri eins alvarlegt og í fyrra dæminu hér að ofan. Það þýðir þó ekki að þetta sé eitthvað sem ekki skiptir máli en ef kennarinn þekkir söguna að baki skammaryrðinu er hann betur settur en annars þegar staðan er metin.

  Þegar fjalla á um rasisma sem kennsluþema er hægt að byrja á því að spyrja nemendurna hvort þeir hafa kynnst rasisma og þá hvernig það þróaðist með því að spyrja: „Í hverju lentirðu?“ og „Hvers vegna skynjaðir þú það sem rasisma?“ Það má líka ræða við nemendur um það hvað rasismi er: „Hvað tengir þú við rasisma?“ „Hverjir verða fyrir rasisma?“ „Geta allir orðið fyrir rasisma?“ Það er líka hægt að fjalla um rasisma í sögulegu samhengi í kennslunni, til dæmis með því að skoða mælingar og kynþáttakort kynþáttavísindanna, skoða söguleg fyrirbæri á borð við aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku, meðferð á Sömum og sígaunum/töturum á Norðurlöndum og þrælasölu Evrópubúa og Araba frá Afríku.

  Það gæti verið snjallt að tengja þetta okkar tímum þegar fjallað er um rasisma í kennslunni.

  Það gæti líka verið snjallt að tengja þetta okkar tímum: „Hvernig er núna fjallað um þrælatímabilið í Bandaríkunum?“ „Hvernig hafa norsk stjórnvöld bætt ráð sitt gagnvart Sömum?“ Að lokum tekur svo kennarinn viðhorf nemenda til umræðu á ný og fjallar um það sem er líkt og ólíkt með skilningi þeirra á rasisma og sögulegu dæmunum. Það getur verið umtalsverður meiningarmunur um málefnið svo umræður gætu orðið mjög áhugaverðar.

  Höfundur: Harald Syse

   

 • Gyðingahatur

  Flýtivalmynd

  Hvað er gyðingahatur?

  Oft er sögu gyðingahaturs skipt í tvo kafla. Fyrri hlutinn nær yfir tímabilið frá því snemma á miðöldum til loka 19. aldar og átti rætur að rekja til kristinnar trúar. Það þróaðist svo yfir í gyðingahatur á grundvelli þjóðernishyggju og kynþáttavísinda og náði hámarki sínu á tímum nasismans. Eitt af einkennum viðhorfa í gyðingahatri er að auðvelt er að laga þau að umræðu og vandamálum samtímans svo það tekur stöðugum breytingum. Bæði Helförin og átök Ísraelsmanna og Palestínumanna hafa verið mikilvæg viðmið viðhorfanna síðan annarri heimsstyrjöld lauk. Sumir fræðimenn líta á þessa þróun sem þriðja stigið í sögu gyðingahaturs en mjög er rökrætt hvort um er að ræða „nýtt gyðingahatur (sjá til dæmis Bachner 2004 & Wieviorka 2005). Því má halda fram að bæði í sögulegu samhengi og á okkar dögum sé einmitt blanda gamalla og nýrra þátta helsta einkenni gyðingahaturs. Hugtakið „gyðingahatur“ varð til á áttunda áratug 19. aldar en höfundur þess er Þjóðverjinn Wilhelm Marr. Á þeim tíma var orðið notað til þess að lýsa pólitískri hugmyndafræði hreyfingar sem vann gegn því sem litið var á sem neikvæða samfélagsþróun í átt til „yfirráða gyðinga“. Hreyfingin varð til sem viðbrögð við því að gyðingum voru veitt borgaraleg réttindi (frelsun gyðinganna) og að félagslegt afl þeirra jókst (sjá til dæmis Jacob Katz 1980). Hugtakið tengdist í fyrstu andúð á gyðingum á grundvelli kynþáttahyggju þess tíma en á okkar dögum er það oftast notað í víðara samhengi til þess að ná einnig yfir eldri trúarlega andúð á gyðingum og seinni tíma viðhorf andsnúin gyðingum.

  Skilgreina má gyðingahatur sem neikvæð viðhorf og aðgerðir sem beint er gegn gyðingum og því sem talið er vera „gyðinglegt“ í tengslum við ákveðnar hugmyndir um gyðinga.

  Í ljósi þessa má skilgreina gyðingahatur sem neikvæð viðhorf og aðgerðir sem beint er gegn gyðingum og því sem talið er vera „gyðinglegt“ í tengslum við ákveðnar hugmyndir um gyðinga. Það er hins vegar oft deilt um hugtakið gyðingahatur. Til þess liggja margar ástæður og sumpart sögulegar. Eftir síðari heimsstyrjöld þóttu augljós neikvæð viðhorf til gyðinga vera til vansa í Evrópu. Ýmsir lýstu sjálfum sér sem „gyðingahöturum“ á millistríðsárunum í Evrópu en þannig yfirlýsing væri því sem næst óhugsandi í dag. Þetta hefur svo leitt til þess að rökræður um gyðingahatur fela oft í sér umræðu um skilgreiningu á hugtakinu. Gyðingahatur er líka dæmigert venslafyrirbæri eins og það birtist í mismunandi aðstæðum, hvort sem það er í skólanum, á skólalóðinni eða annar staðar. Með því er átt við að ákveðnar aðstæður og samskipti viðkomandi einstaklinga móta það og hvernig það er túlkað.

  Mikilvægi sögunnar: viðhorfin eru djúptæk

  Andúð gegn gyðingum byggist á ákveðnum hugmyndum um gyðinga og að þeir búi yfir ákveðnum neikvæðum eiginleikum og skapgerðareinkennum. Viðhorfin liggja í menningunni og eru felld að breytilegum sögulegum og samfélagslegum aðstæðum. Þegar saga viðhorfa gyðingahaturs eru skoðuð kemur einnig í ljós hvernig ákveðnar grunnhugmyndir endurtaka sig. Sem dæmi um þær má nefna að gyðingar séu óáreiðanlegir, framandi og voldugir.

  Grunnhugmyndir gyðingahaturs eru þær að gyðingar séu óáreiðanlegir, framandi og voldugir.

  Öll hópamótun felur í sér ein eða önnur mörk á milli „okkar“ og „hinna“. Þegar við mótum hugmyndir okkar um „hina“, mótum við líka mynd af „okkur“ sem lýsir því hvaða gildi og málefni við metum mikils. Það má líta svo á að gyðingahatrið sé einhvers konar andstaða við samfélag „okkar“. Staðalímyndir byggðar á andúð á gyðingum spretta af ákveðinni þörf, erfiðleikum eða hugmyndum sem eru á sveimi í samtímanum. Við þurfum að átta okkur á því hvaða tilgang myndin af „gyðingnum“ hefur haft til þess að skilja samhengið í sögu gyðingahatursins. Sé saga gyðingahaturs skoðuð er það áberandi hvernig miðaldahugmyndir um „gyðinginn“ einkenndust af átökum kristni og gyðingdóms. Trúin á skynsemishugsunina var mikilvæg á upplýsingaöldinni og þá var hægt að setja gyðingdóm á sama bás og önnur trúarbrögð og segja hann andstæðan skynsemi og ganga gegn tíðarandanum. Eftir rússnesku byltinguna bættist við hugmyndin um gyðinga sem mögulega byltingarmenn, „gyðingabolsévikka“ og alvarlega ógn, samsæri gyðinga og kommúnista. Þannig hafa hugmyndir manna um gyðinga breyst með tímanum í samræmi við samfélagslegar breytingar.

  Í sögulegu samhengi má segja að trúarlegar andstæður gyðingdóms og kristni séu helstu menningarlegu ástæður andúðar á gyðingum í Evrópu.

  Í sögulegu samhengi má segja að trúarlegar andstæður gyðingdóms og kristni, það er hvort Kristur sé messías/frelsarinn eða ekki, sé séu helstu menningarlegu ástæður andúðar á gyðingum í Evrópu. Fræðimenn rökræða hvort gyðingar hafi þegar í fornöld verið ofsóttir vegna andúðar á þeim. Á tímum krossferðanna verður til greinileg ímynd bæði gyðinga og múslíma sem óvinar allt frá upphafi 12. aldar. Það má því segja að gyðingahatur eigi sér um þúsund ára sögu í Evrópu. Eitt af einkennum fordóma á borð við rasisma og gyðingahatur, fordóma sem snúa að hópi fólks, er sögulegt samhengi þar sem forsagan snertir bæði reynslu manna og túlkun þeirra á því sem gerst hefur. Það getur þó verið mikill munur á því sem gerist, hvernig umhverfið skynjar það og hver tilgangurinn var.

  Þegar bregðast á við gyðingahatri getur verið mikilvægt að þekkja til sögulegs samhengis.

  Rannsókn var gerð við HL-miðstöðina í Noregi þar sem greint var frá reynslu norskra gyðinga af gyðingahatri (Døving og Moe 2014). Rannsóknin sýnir hvernig löng forsaga hugmyndanna hefur áhrif á túlkun svarenda á neikvæðum hugmyndum. Einna algengast var að svarendur lýstu atvikum sem fólu í sér hugmyndir um „fjármálagyðinginn“ en þær byggjast á hefðbundnum staðalímyndum gyðinga. Fjórtán ára piltur frá Ósló sagði sína sögu. Hann hafði oft lent í því í skólanum að nemendur áreittu hann með þessa hugmynd að leiðarstefi. Áreitnin fór þannig fram að nemendur köstuðu að honum smápeningum og spurðu svo hvers vegna hann safnaði þeim ekki saman fyrst hann væri gyðingur. Að sögn piltsins voru það „þeir vinsælu“ sem þetta gerðu og þóttu í framhaldi af áreitinu vera enn „svalari“. Oft var áhorfendahópurinn stór („hundrað“) en oftast fimm til tíu nemendur. Hann sagði að gerendur hefðu alltaf verið strákar en „stelpurnar hlógu“. Piltinum þótti þetta mjög niðurlægjandi. Nauðsynlegt er að varpa ljósi á það hvernig atvik hafa víðtækari skírskotun en virðist við fyrstu sýn til þess að skilja áreitnina í fordómum með vísan til hóps. Nauðsynlegt er að þekkja sögulegar forsendur hugmyndanna til þess að geta tekið á gyðingahatri.

  Ýmsar helstu hugmynda manna um gyðinga eru sóttar í sögunni um Júdas. Grunnstef hugmyndarinnar um svikula gyðinginn sem hatar kristni og ber ábyrgð á dauða Krists er svik hans gagnvart honum. Júdas tók við greiðslu fyrir svikin og þannig kemur til hugmyndin um ágirnd gyðinga í efnisleg gæði. Hugmyndin um fégræðgi gyðinga er framlenging á hinni kristnu hugmynd um Júdas sem lét múta sér.

  Júdas sveik Krist og það er grunnstefið í hugmyndinni um gyðinginn svikula og fégræðgi þeirra.

  Hugmyndin festi svo rætur í framhaldi af átökum kirkju og konungvalds í Evrópu. Snemma á miðöldum störfuðu gyðingar í öllum atvinnugreinum en voru þó mest áberandi í viðskiptum. Víða var gyðingum bannað að eiga land og viðskiptin urðu því tækifæri til að afla sér lífsviðurværis. Þetta breyttist þó á 11. öld og gyðingar fóru að mæta samkeppni annarra hópa sem líka ætluðu sér að lifa af viðskiptum. Mikil eftirspurn var eftir lánum og gyðingar féllu ekki undir ákvæði kirkjunnar sem meinuðu kristnum mönnum að lána fé gegn vöxtum. Gyðingar voru raunar aldrei einir um að stunda lánastarfsemi í Evrópu (að undanteknu Englandi á hluta 12. aldar) og bara fáir úr hópi gyðinga stunduðu þannig viðskipti. Gyðingar í Austur-Evrópu voru að jafnaði fátækt fólk. Myndin af gyðingnum sem lánabraskara varð þó fastur hluti af evrópskum hugmyndaheimi. Sælokk, gamli gyðingurinn sem lánaði fé í leikriti Shakespeares um „Kaupmanninn í Feneyjum“ er gott dæmi um hve langlíf þessi hugmynd er í evrópskri menningu. Þegar Shakespeare samdi leikritið voru rúm 300 ár síðan gyðingum hafði verið vísað frá Englandi (það gerðist árið 1290 en leikritið var samið á árunum 1596/7). Evrópa heldur svo áfram að þróast í átt til nútímans og staðalímyndir gyðingahatursins taka því breytingum. Hugmyndin um „fjármálagyðinginn“ fer með tímanum einnig að ná til alþjóðlegs fjármálavalds, kapítalista og kauphallarbraskara.

  Þegar neikvæðir eiginleikar eru tengdir hugmyndum um kynþátt og líffræði eru þeir einnig heimfærðir upp á einstaklingana, burtséð frá gjörðum þeirra.

  Eitt af helstu einkennum hins rasíska „nútíma“ gyðingahaturs er einmitt kynþáttalíffræðilegar hugmyndir þess. Gyðingar höfðu sem hópur verið álitnir hafa ákveðin sameiginleg einkenni en nú tók sú skoðun öll völd og skipti sköpum. Þegar neikvæðir eiginleikar eru tengdir hugmyndum um kynþátt og líffræði eru þeir einnig heimfærðir upp á einstaklingana, burtséð frá gjörðum þeirra. Hugmynd gyðingahaturs um hið „gyðinglega“ leiddi einnig til þess að það varð ekki lengur nóg að skipta um trú til að losna undan andgyðinglegum afskiptum. Það einkennir reyndar hugmyndir nasismans og gyðingahaturs okkar daga um hið „gyðinglega“ að það nær í raun yfir allt það sem nasisminn var andsnúinn, bæði pólitíska andstæðinga, þætti samfélagslegrar þróunar og jafnvel nútímann sjálfan.

  Mótun hóps sem „virk spá“

  Nemendur munu ræða fram og til baka að hvaða marki hugmyndir á borð við þessa eiga sér rót í veruleikanum. Yfirleitt er hægt að finna dæmi úr samtímanum sem „rök“ til stuðnings hugmyndunum. Ranghugmyndin (eða mótun hópsins) felst í því að alhæfa um alla gyðinga í ljósi einstakra dæma. Það er einnig ákveðin tilhneiging til þess að staðalímyndir staðfesti sjálfar sig með einmitt því að veita ákveðinn skilning á veruleikanum en dragi sem mest úr mikilvægi dæma sem ganga gegn þeim (sjá til dæmis Robert S. Wistrick 1999).

  Hugsunarháttur staðalímynda færir fólki fastmótað sjónarhorn, það sér bara það sem það vill sjá.

  Segja má að hugsunarháttur staðalímynda færi fólki fastmótað sjónarhorn, að það sjái bara það sem það vill sjá. Hugmyndir hópfjandskapar hafa einnig í sögulegu samhengi haft áhrif á samfélagslega stöðu, þannig að frelsi minnihlutahópa hefur verið takmarkað í ljósi viðhorfa meirihlutans. Hér má nefna sem dæmi úr sögu gyðingahaturs að lengi var gyðingum bannað að eiga land. Það leiddi til þess að á tímabili lögðu gyðingar áherslu á verslun sér til viðurværis. Þannig er hugmyndin um ágjarna gyðinginn staðfest. Hugmyndin um „fjármálagyðinginn“ er oft „útskýrð“ með vísan til þekktra auðmanna. Staðalímyndir leiða þannig til þess að ákveðnir þættir veruleikans fá forgang en að ýtt er til hliðar þáttum sem ganga gegn þeim, til dæmis þeim milljónum gyðinga sem búið hafa við fátækt í austurhluta Evrópu. Þessi framsetning getur einnig leitt til þess að hægt er að gera fórnarlambið ábyrgt fyrir neikvæðu viðhorfunum. Skoðanakönnun HL-miðstöðvarinnar sýndi að 12% Norðmanna álíta að „gyðingar beri sjálfir að miklu leyti ábyrgð á því að þeir hafa verið ofsóttir“ (HL-miðstöðin 2012).

  Gyðingahatur og átök Ísraelsmanna og Palestínumanna

  Svarendur í rannsókn HL-miðstöðvarinnar sögðu að neikvæð reynsla þeirra ætti í mjög mörgum tilfellum rót að rekja til átaka Ísraelsmanna og Palestínumanna. Næstum allir sögðu að deilur vegna átakanna gætu verið óþægilegar.

  Rannsóknir sýna að samhengi er á milli átaka Ísraelsmanna og Palestínumanna og auðsýnds gyðingahaturs.

  Evrópskar rannsóknir sýna að samhengi er á milli átaka Ísraelsmanna og Palestínumanna og auðsýnds gyðingahaturs því þegar átökin aukast, fjölgar árásum á gyðinga og stofnanir þeirra (sjá til dæmis EUMC 2004 og FRA 2009). Átökin bæta nýju efni við í myndina af „gyðingnum“ en einkenna líka grunnstefin í viðhorfum gyðingahaturs, það er hugmyndirnar um völd og samsæri gyðinga með því að tengja það Ísrael og stefnu stjórnvalda þar. Oft sjást tákn nasismans í sambandi við yfirlýsingar andsnúnar gyðingum. Í viðtölum við norska gyðinga var sagt frá kennurum sem mættu andmælum þegar kom að kennslu um Helförina, þeir höfðu séð nasistakveðjur í skólastofunni og heyrt athugasemdir í líkingu við: „Hitler stóð sig ekki nógu vel“. Stundum er líka gripið til tákna í tengslum við gagnrýni á Ísrael sem umturna hugmyndum um gerendur og fórnarlömb: Gyðingum (það er Ísraelsmönnum) er þá lýst sem „nasistum“ en Palestínumönnum sem fórnarlömbum nasista, á sama hátt og gyðingar voru það.

  Þá nota menn átökin til árása á gyðinga, þó án þess að hægt sé að flokka gagnrýnina sem gyðingahatur.

  Skoðanakönnun HL-miðstöðvarinnar sýndi ótvírætt en þó megindlega séð lítið samhengi á milli gyðingahaturs og mjög harðrar afstöðu gegn Ísrael hjá norskum almenningi (HL-miðstöðin 2012). Hins vegar var ekki hægt að greina þá fylgni hjá flestum svarendum sem gagnrýnir voru á Ísrael. Í opinberri umræðu er endurtekið fjallað um tengsl gagnrýni á Ísrael og gyðingahaturs. Rökræðan snýst oft um það hve rétt sú mynd sé sem fjölmiðlar draga upp af átökum Ísraelsmanna og Palestínumanna. Líklega er mikilvægast fyrir kennara að hafa í huga að engu skiptir hvort skekkja sé í mynd fjölmiðla, hvort þar séu einhverjar rangar upplýsingar eða hvort hún sé rétt, hún getur verið íþyngjandi og leitt til áreitni sem byggist á því hvernig Ísrael er lýst. Þannig má nota átökin til árása á gyðinga, þó án þess að hægt sé að flokka gagnrýnina sem gyðingahatur.

  Margir svarendur í megindlegu rannsókninni nefndu ýmsar alhæfingar, svo sem „Ísraelsmaður“ og „gyðingur“ (Døving og Moe 2014). Frásagnir svarenda snerust bæði um einfaldar yfirfærslur og aðstæður þar sem þeim þótti sem þeir yrðu á ýmsa vegu að svara fyrir gjörðir Ísraelsmanna. Oft var þó um að ræða meira undirliggjandi yfirfærslur þar sem svarendum fannst fólk gera aukna kröfu um að þeir mótmæltu atburðum í Ísrael eða að fólk gerði ýtarlegri kröfur til þeirra en annarra um þekkingu á deilumálum þar. Þessi atvik voru ekki nærri alltaf flokkuð sem reynsla af gyðingahatri en þau þóttu engu að síður óþægileg.

  Algengt er að alhæft sé um að vera „Ísraelsmaður“ og „gyðingur“.

  Ein frásögnin snerist um reynslu svaranda þegar hún var í öðrum bekk í skóla í Ósló. Fyrsta skóladag eftir sumarfrí áttu allir að teikna stað sem þau höfðu heimsótt um sumarið og hún gerði teikningu frá Ísrael en fjölskyldan hafði farið í frí þangað. Þegar að henni kom að sýna bekknum teikninguna stöðvaði kennarinn hana og spurði hvað hún hefði teiknað. „Það er Ísrael“, svaraði stúlkan. „Ég held ekki að þú eigi að sýna hana hér, þú gætir sært aðra í bekknum,“ svaraði kennarinn. Stúlkan var svo beðin um að fá sér sæti á ný. Þetta atvik lýsir ekki endilega neikvæðri afstöðu til gyðinga, aðrar ástæður geta legið að baki viðbragða kennarans. Við þessar kringumstæður skynjaði stúlkan þó engu að síður viðbrögðin sem útilokun.

  Átök Ísraelsmanna og Palestínumanna hafa sér í lagi áhrif á tengsl við nemendur með rætur í Austurlöndum nær. Sumir svarendur höfðu orðið fyrir mjög alvarlegum og á köflum ofbeldisfullum afleiðingum gyðingahaturs á grundvelli deilunnar þar sem gerendur tengdust Austurlöndum nær. Almennt séð höfðu svarendur mestar áhyggjur af gyðingahatri á meðal múslíma. Margir þeirra lögðu þó áherslu á að gera greinarmun þegar rætt var um „múslíma“ og bentu á það að bæði gyðingar og múslímar búa yfir mikilli sameiginlegri reynslu af því að tilheyra minnihlutahópi í Noregi. Margir áttu líka vini úr hópi múslíma.

  Það má lýsa gagnrýni á Ísrael sem gyðingahatri þegar neikvæðar aðgerðir Ísraelsmanna eru sagðar afleiðing innbyggðra neikvæðra persónueinkenna gyðinga eða þegar sígildar hugmyndir gyðingahaturs eru sagðar einkenna gjörðir Ísraelsríkis.

  Það má lýsa gagnrýni á Ísrael sem gyðingahatri þegar neikvæðar aðgerðir Ísraelsmanna eru sagðar afleiðing innbyggðra neikvæðra persónueinkenna gyðinga eða þegar sígildar hugmyndir gyðingahaturs eru sagðar einkenna gjörðir Ísraelsríkis. Ein ákveðin skilgreining hefur þó lítið að segja í aðstæðum sem upp koma í skóla. Vandinn sem við blasir er ekki síður sá að fjalla um málefnið frá báðum hliðum og þróa aðferðir til að stýra umræðum í skólastofunni þannig að nemendum finnist þeir flokkaðir í bása á grundvelli samsömunar sinnar. Þannig fá allir nemendur tækifæri til þess að taka þátt í kennslunni á eigin forsendum. Kennaranum er ráðlagt að undirstrika að gyðingar sé ekki það sama og Ísraelsmenn og að Ísraelsmenn séu ekki það sama og ríkisstjórn Ísraels. Mikilvægt er að leggja áherslu á blæbrigðin þegar fjallað er um átökin í kennslunni og gagnlegt gæti reynst að fjalla nánar um sögu þessa heimshluta og forsendurnar að baki stofnunar Ísraelsríkis.

  Að afneita Helförinni

  Helför gyðinga er líklega best skjalfesta þjóðarmorð sögunnar en engu að síður eru þeir til sem hafna því að hún hafi átt sér stað eða segja frásagnir af henni mjög ýktar. Rökræðan gengur í ýmsar áttir en snýst oft um það hvort gasklefar hafi verið til. Þeir sem þannig hugsa hafna því að gasklefar hafi verið til eða halda því fram að þeir hafi verið notaðir til annars en morða heldur meðal annars til þess að aflúsa fólk. Það að afneita Helförinni snýst einnig oft um það að draga í efa hugmyndafræðilegar forsendur þjóðarmorðsins með því að efast um markmiðið. Því er haldið fram að aldrei hafi legið fyrir ákveðin stefna um útrýmingu, einungis mannflutninga austur á bóginn og að þessar nær sex milljónir gyðinga hafi látist af öðrum ástæðum, einkum sjúkdómum. Afneitunin byggist þar að auki oft á þeirri hugmynd að þjóðarmorðið sé tilbúningur gyðinga í þeim tilgangi að sölsa undir sig völd eða fé. Þar er einnig að finna hugmyndir um samsæriskenningar og rökin eru sítt í hugmyndir gyðingahaturs.

  Afneitun Helfararinnar byggist oft á þeirri hugmynd að þjóðarmorðið sé tilbúningur gyðinga í þeim tilgangi að sölsa undir sig völd eða fé.

  Helförinni er líka stundum hafnað í skólastofunni. Það getur reynst erfitt að taka á fullyrðingunum því þær bera fræðilegt yfirbragð sem gerir kennaranum erfitt fyrir að mótmæla þeim beinlínis. Afneitun Helfararinnar á þetta sameiginlegt með (öðrum) samsæriskenningum. Þess vegna er mikilvægt að þróa góða aðferð til heimildarýni, auk þess að setja sér það markmið að auka þekkinguna á sögulegum atburðum tengdum Helförinni, til þess að efla nemendur til að verjast þessum hugmyndum.

  Höfundur: Vibeke Moe

 • Íslamsfælni

  Flýtivalmynd

  Hvað er íslamsfælni?

  Gerð hefur verið grein fyrir umfangi neikvæðrar afstöðu til múslíma í mörgum rannsóknum víða í Vestur-Evrópu, þar með talið í Noregi (sjá til dæmis Pew 2008, Field 2007, Strabac og Listhaug 2007, Bleich 2009 og HL-miðstöðin 2012) en við vitum fátt um umfang íslamsfælni meðal Norðmanna.

  Íslamsfælni og fordómar gegn múslímum er ekki sami hluturinn.

  Neikvæð afstaða og fordómar tengjast vitaskuld þróun og forsendum íslamsfælni en það er eðlismunur á fordómum gegn múslímum og þeim hugmyndafræðilegu alhæfingum sem einkenna íslamsfælnina svo mjög. Íslamsfælni byggist á miklum alhæfingum um óumbreytanlega eðlishyggju múslíma sem ekki þarf endilega að vera til staðar í öllum neikvæðum viðhorfum gegn múslímum. Þegar einstaklingum í ákveðnum hópi eru gefin ákveðin óumbreytanleg persónueinkenni er um að ræða eðlishyggju.

  Hægt er að skilgreina íslamsfælni sem:

  kerfisbundna og hugmyndafræðilega mótun fordóma og atferli sem eflir ótta við múslíma, hatur og mismunun gagnvart þeim.[1]

  Einkenni íslamsfælni

  Hvernig íslamsfælni birtist í tali fólks:

   • fullyrðingar sem byggjast á hugmyndum um óumbreytanleika þess hvað íslam „er“ og að múslímar „hugsi og framkvæmi“ í samræmi við þessar hugmyndir um hvað íslam „sé“,
   • rangar fullyrðingar eða mjög ýktar og hatursfullar, settar fram í þeim tilgangi að smána
   • fullyrðingar byggðar á þeirri hugmynd að múslímar séu minna virði en aðrir í krafti trúar sinnar og/eða að þeir eigi ekki rétt á sömu borgaralegu réttindum og aðrir í evrópsku samfélagi.

  Gyðingahatur beinist ekki eingöngu gegn gyðingdómi heldur gegn gyðingum og hugmyndum manna um hvað það er að vera gyðingur. Sama máli gegnir um íslamsfælni, hún beinist ekki endilega gegn íslam einu og sér heldur er hrærigrautur hugmynda um menningu, þjóðerni og hugarfar þjóða. Trúarbrögð eru þó oft mjög áberandi þáttur í þessum hrærigraut. Íslamsfælni gerir að oft er líka fjallað á ákveðinn hátt um íslamska trú, það er sem:

   • ósveigjanlega og stífa
   • í grundvallaratriðum ólíka öðrum trúarbrögðum og menningarsvæðum
   • lakari en vestræna menningu, villimannlega, órökrétta, frumstæða og fulla kynjamismununar
   • pólitísk trúarbrögð og ofbeldisfull svo af þeim stendur ógn
   • að íslam sé það sama og íslamismi
   • hugmyndafræði sem einstaklingar beita til þess að ráðskast með aðra og ná stjórninni
   • trúarbrögð sem eru í sjálfu sér virk (íslam er með óhreint mjöl í pokahorninu, íslam vill leggja undir sig lönd o.s.frv.)

  Samsærishugsunarháttur

  Þekktar hugmyndir íslamsfælninnar einkennast oft af samsæriskenningum. Sem dæmi má nefna hugmyndina um að múslímar vinni með leynd að því að taka Evrópu yfir, það er hina svonefndu Evróarabíukenningu. Að „þeir þykist samþykkja gildismat okkar“ en að í raun séu þeir að blekkja. Eitt helsta einkenni íslamsfælni eru hugmyndir um að múslímar séu í sjálfu sér neikvætt fyrirbrigði, alveg sama hvað þeir gera, og að þeir séu fyrir fram dæmdir í krafti hugmynda um persónueinkenni sem þeir hafa erft við það eitt að hafa verið skilgreindir inn í ákveðinn hóp/flokk. Þeir eru sagðir vera ofstækisfullir, ekki þola einstaklingsfrelsi, mismuna konum, ekki vilja aðlagast þjóðfélaginu og vera ofbeldisfullir.

  Þessu til viðbótar er svo staðalímyndin af hryðjuverkastarfsemi sem eðlislægu einkenni „múslímans“, að hann vilji leggja allt „sem okkar er“ undir íslam og óttist ekki að drýgja hermdarverk. Þegar eðlislæg einkenni af þessu tagi eru tekin með í hugmyndakerfi til að rökstyðja að múslímar séu í sjálfu sér hættulegt fólk sem beri að útiloka, er um að ræða íslamsfælni.

  Íslamsfælni og rasismi

  Sé rasismi það að ætla fólki ákveðin eðlislæg einkenni á grundvelli hóps sem það tilheyrir og skilgreinir þau sem svo neikvæð að halda verði fólki af þeim hópi frá sér, má skilgreina þá sértæku aðferð sem notuð er í þessum tilgangi gegn múslímum sem íslamsfælni.

  Oft er því mótmælt að íslamsfælni sé rasismi með því að vísa til hugmynda um frelsi einstaklingsins. Múslími getur jú valið að vera ekki múslími, öfugt við meðfæddan húðlit sem ekki er hægt að hafna. Það má að sumu leyti líta á múslímska samsömun sem eitthvað sem fólk velur sjálft, a.m.k. hjá fullorðnu fólki í vestrænu frjálslyndu og veraldlegu samhengi. Flestir þeirra sem lýsa má sem íslamsfælnum viðurkenna til dæmis að hægt sé að skipta um trú og yfirgefa íslam og að þá séu menn ekki lengur flokkaðir sem múslímar.

  Flestir með íslamsfælni hafa þar af leiðandi ekki þær hugmyndir að blóð/líffræði ráði múslímskri samsömun. Öfugt við líffræðilegan „kynþátt“ er það að hafa íslamstrú nokkuð sem hægt er að „velja frá“ og þess vegna er því haldið fram að ekki sé hægt að kalla íslamsfælni rasisma. Vandinn við þessi rök er sá að einstaklingurinn velur ekki að fæðast inn í múslímska fjölskyldu, ekki frekar en kristinn maður eða gyðingur velur að fæðast í sínar trúuðu fjölskyldur. Menn velja heldur ekki það að mæta nær alltaf, burtséð frá trúarbrögðum, mati og framkomu sem múslími, meðal annars einmitt vegna útlits/húðlitar eða nafns (sjá Meer og Modood 2009: 345, og Meer 2012).

  Múslímar verða með öðrum orðum oft fyrir rasisma og kynþáttaflokkun í krafti (ætlaðra eða raunverulegra) trúarbragða sinna. Boðskapur íslamsfælninnar og helsta áhrifaleið er að færa múslímum óumbreytanlega og ógnandi eiginleika.

  [1] Skilgreiningin og textinn byggist á bókinni «Hvað er rasismi» eftir Bangstad og Døving (2015), Universitetsforlaget.

  Höfundur: Cora Alexa Døving

 • Bókmenntir

  Rasismi

  Bangstad, Sindre/ Døving, Cora Alexa (2015). Hva er rasisme?. Oslo: Univerisitetsforlaget.

  Goldberg, D. T. (2015). Are we postracial yet?. UK and Cambridge: Polity Press.

  Kyllingstad, Jon R. (2004). Kortskaller og langskaller: Fysisk antropologi i Norge og striden om det nordiske herremennesket. Oslo: Scandinavian Academic Press.

  Murji, K. and Solomos, J. (eds) (2015). Theories of Race and Ethnicity. Contemporary debates and perspectives, Cambridge: University Press.

  Rattansi, Ali (2007). Racism: A Very Short Introduction. Oxford og New York: Oxford University Press.

  Skorgen, Torgeir (2002). Rasenes oppfinnelse: Rasetenkningens historie. Oslo: Spartacus

  Wieviorka, Michel (1995). The Arena of Racism. London og New York: Sage.

  Gyðingahatur

  Bachner, Henrik (2004). Återkomsten – Antisemitism i Sverige efter 1945, Stockholm , Natur och Kultur.

  Døving, Cora Alexa og Vibeke Moe (2014). Det som er jødisk. Identiteter, historiebevissthet og erfaringer med antisemittisme, rapport fra HL-senteret.

  Eriksen, Trond Berg/ Harket, Håkon/ Lorenz, Einhart (2009). Jødehat – Antisemittismens historie fra antikken til i dag. Oslo: Cappelen Damm.

  European Monitoring Centre on Racism and Xenophobia (EUMC) (2004). Manifestations of antisemitism in the EU 2002 – 2003, Wien.

  Fundamental Rights Agency (FRA) (2009). Anti-Semitism: Summary overview of the situation in the European Union 2001 – 2008, Wien.

  HL-senteret (2012). Antisemittisme I Norge? Den norske befolkningens holdninger til jøder og andre minoriteter, rapport fra HL-senteret.

  Katz, Jacob (1980). From Prejudice to Destruction. Antisemitism, 1700-1933, Harvard University Press.

  Wieviorka, Michel et al. (2005). La tentation antisémite: Haine des Juifs dans la France d’aujourd’hui, Paris: Robert Laffont.

  Wistrich, Robert (1999). Demonizing the Other. Antisemitism, Racism and Xenophobia, Routledge.

  Íslamsfælni

  Meer, Nasar (red.) (2014). Racialization and Religion. Race, Culture and Difference in the Study of Antisemitism and Islamophobia, London: Routledge.

  Hópfjandskapar

  Zick, Andreas/ Küpper, Beate/ Hövermann, Andreas. (2011). Intolerance, Prejudice and Discrimination. A European Report. Berlin: Friedrich-Ebert-Stiftung.

Undervisningsopplegg